141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að það liggi skýrt fyrir hver kostnaðurinn er hverju sinni við aðildarviðræðurnar, eins og lögð var áhersla á á sínum tíma af hálfu meiri hluta utanríkismálanefndar þegar samþykkt var að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel þetta vera ákveðna viðleitni að draga fram kostnaðinn sem tengist umsóknarferlinu að Evrópusambandinu og það er gott. Hins vegar hvet ég til þess að það verði alveg skýrt hvað ferlið kostar þannig að öllum sé það ljóst.

Hins vegar leyni ég því ekki að ég er enn eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að halda áfram með aðildarumsóknina, við eigum að klára hana til að fólkið í landinu geti á endanum fengið að velja um hvort það vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þess vegna þurfum við að vanda okkur við umsóknarferlið. Það mun taka tíma, það mun kosta fjármagn. Við þurfum að styðja við okkar besta fólk í samningaviðræðunum, klára samninginn og veita fólkinu okkar valkosti til lengri tíma. (Gripið fram í: Heyr. Heyr.)