141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau svör sem hv. þingmaður vísar til frá hæstv. umhverfisráðherra eru mjög alvarleg. Þau koma ekki á óvart, það virðist hafa blasað við. Hæstv. umhverfisráðherra gerir þá ekki annað en að staðfesta allt sem við höfum sagt um málið, að stoppistöðin sem búin var til í góðri trú var misnotuð. Það var aldrei ætlunin að fara efnislega yfir málin. Það var bara ætlunin að finna leið til að geta fullnustað pólitíska stefnumótun stjórnarflokkanna, lægsta samnefnarann sem dygði til þess að koma málinu áfram af því að við vitum það öll að það er bullandi ágreiningur um það á báða bóga, sérstaklega innan Samfylkingarinnar og þar með á milli stjórnarflokkanna.

Það eru annars vegar sjónarmið sem segja: Auðvitað á að nýta orkukostina til atvinnulegrar uppbyggingar og verðmætasköpunar í samræmi við hugmyndir okkar um sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, og hins vegar hinna sem vilja setja þetta allt saman í stóra stopp og eru þegar búnir að gera það með annars vegar þessari þingsályktunartillögu og efnismeðferð meiri hluta umhverfisnefndar.

Auðvitað sjá orkufyrirtækin og framkvæmdaraðilarnir sér hag í því að reyna að útfæra virkjanirnar með þeim hætti að það dragi úr umhverfisáhrifunum. Af hverju? Jú, vegna þess að þeir gera sér grein fyrir því að það er líklegast til þess að sleppa í gegnum öll þau litlu skráargöt sem menn þurfa að fara í gegnum áður en hægt er að fara af stað með framkvæmdir. Það þarf að fara í gegnum rammaáætlun, það þarf að fara í gegnum skipulagsmál, það þarf að fara í gegnum umsagnir sveitarfélaga o.s.frv. Ef menn ganga ekki sæmilega um landið og umhverfi sitt er ekki von til þess að þessar virkjanir nái nokkurn tíma að komast á framkvæmdastig. Þess vegna er svona ríkur vilji til þess að gera vel og þess vegna er það auðvitað ömurlegt að vita til þess að ráðherrar hafi hins vegar kosið að bregðast svona trausti þingsins og nota þetta eingöngu í pólitísku duttlungaskyni.