141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekkert athugavert við að biðflokkurinn sé stór og að á hann sé litið sem geymsluflokk þangað til við höfum frekari upplýsingar. Nú kom hv. þingmaður inn á það að hún þyrfti ekki frekari upplýsingar um til dæmis Skjálfanda, hún gæti tekið ákvörðun. Á sama tíma hefur hv. þingmaður komið hér upp — og í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er ákall um að það þurfi miklu fleiri rannsóknir til að setja alla hluti í nýtingarflokk sem þó er ekki ávísun á nýtingu heldur á rannsóknir. Þess vegna hef ég talað fyrir því að annaðhvort verði innan þessa stóra biðflokks svigrúm fyrir aukadeild eða sérbiðflokk, einfaldlega. Ef við viljum ekki setja kostina í nýtingarflokk þar sem þeir geta þar af leiðandi fengið fjármagn mundum við setja þá í biðflokk til rannsókna eða eitthvað slíkt sem væri þar með vísbending um að við vildum setja fjármagn í þá kosti en síðan væri mjög stór biðflokkur alls kyns kosta sem við vildum geyma til síðari tíma, nýrrar þekkingar og frekari rannsókna, (Forseti hringir.) að við tækjum engar ákvarðanir um það. Ég hef hins vegar ekki talað fyrir því að biðflokkurinn allur ætti að verða einhver (Forseti hringir.) virkjunarbiðflokkur, langt þar frá.