141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:01]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta spurningu. Það sem við þurfum að gera er einmitt að tryggja að þetta ferli eyðileggist ekki. Mér finnst umræðan hér hafa verið góð og fín, en inn á milli hafa menn þó haft tilhneigingu til að segja að nú sé allt eyðilagt. Alls ekki, við erum með mjög mikinn grunn til að standa á og byggja á til framtíðar. Það þarf að skerpa á mjög klárum atriðum, það þarf að skerpa á rannsóknum sem varða landslag og jarðminjar og útivist, sérstaklega í námunda við höfuðborgarsvæðið, og skerpa á alls kyns þáttum sem varða hagræn áhrif og möguleika annarra en orkunýtingaraðila til að nýta svæðin.

Samfélagsrannsóknir eru satt best að segja í molum, sem er ein af þremur grunnstoðum sjálfbærrar þróunar. Ef okkur (Forseti hringir.) tekst að styrkja betur þessa þætti til framtíðar og tryggja að þetta samtal haldi áfram (Forseti hringir.) þvert á flokka held ég að við séum að vinna áfram veginn til góðs.