141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég skal svara spurningu hv. þingmanns skýrt og skilmerkilega. Ég hef einfaldlega ekki séð neina fjárfestingaráætlun frá þessari ríkisstjórn. Við höfum leitað mjög lengi í fjárlaganefnd að hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun en við höfum hvergi fundið hana. Munurinn á fjárfestingu og stofnkostnaði er sá að fjárfesting er eitthvað sem annaðhvort dregur úr gjöldum eða skapar tekjur, en stofnkostnaður er eitthvað sem kallar á rekstur og er bara hrein og klár útgjöld til viðbótar við það sem fyrir er. Svo háttar til að bróðurpartur þess sem kallað er fjárfestingaráætlun er það sem ég mundi kalla skóflustunguáætlun, því að ætlunin er sú að ríkisstjórnarflokkarnir geti skreytt sig með þessu rétt fyrir kosningar og látið síðan aðra um að reyna að fullnusta þessi áform. Að því leytinu til má kalla þetta skóflustunguáætlunina að þeir ætla öðrum erfiðið en ætla sjálfir að fá heiðurinn af verkinu.

Ekkert í fjárlögunum, ekki stafur, er í raun stuðningur á móti hugsanlegu tapi sem kann að verða af þessu. Þetta er mjög sérstakt þegar maður horfir á hvernig þetta er rökstutt. Við erum að tala um að vatnsaflskostirnir séu settir út vegna varúðarsjónarmiða, en jafnframt er í meirihlutaálitinu hafður fullur vari á því að fara svona hratt í háhitavirkjanir. Það er samræmi á milli þessarar tvíbentu afstöðu meiri hlutans í atvinnuveganefnd og meiri hlutans í fjárlaganefnd, við getum talað um tvö andlit í því sambandi. Að þessu leyti til má segja að stjórnarliðar séu sjálfum sér samkvæmir í því rugli sem þeir leggja til.