141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna.

Ég leyfi mér að vitna til álits hv. þingmanns sem er að finna í umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar með þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Það er mjög vandað og greinargott álit og ber að þakka það. Ég vil aðeins eiga skoðanaskipti við hv. þingmann vegna þess að ég sé mjög víða í því áliti að þar er staðhæft allnokkuð um hina pólitísku rammaáætlun og hin pólitísku fingraför sem hv. þingmaður telur vera á því plaggi sem hér liggur fyrir. Sérstaka athygli vekur einmitt það mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni og ekki síður allir þeir sex vatnsaflsvirkjunarkosti sem færðir eru út.

Ég hef ekki heyrt fulltrúa þeirra sjónarmiða sem endurspeglast í tillögugerð meiri hlutans, þ.e. þá sem bera tillöguna fram í því formi sem hún liggur hér fyrir þinginu, gefa skýringar á þeim breytingum sem gerðar voru frá niðurstöðu verkefnisstjórnar til þeirrar pólitísku ályktunar sem hér er lögð fram.

Þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur fylgst mjög vel með málinu og unnið að því væri fróðlegt að heyra hver hans sjónarmið eru og hvort hann hafi orðið einhvers uppvísari í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað af hálfu stjórnarliðanna. Hefur hann heyrt einhverja viðhlítandi og skynsamlegar skýringar á þeirri breytingu sem gerð hefur verið?