141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar þar sem hún kom víða við og velti fyrir sér atvinnutækifærum. Því hvernig þessi ríkisstjórn er raunverulega viljandi að skrúfa niður atvinnulífið með því að setja á það virkjunarstopp sem birtist í þessu plaggi sem er til umræðu.

Mig langar aðeins til þess að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún kemur úr Suðurkjördæmi. Sá landshluti býr yfir mjög mörgum orkusköpunartækifærum. Samkvæmt þessu plani er búið að taka vatnsrennslisvirkjanir úr Þjórsá og setja háhitavirkjanir á Reykjanesi í forgang. Finnst hv. þingmanni skynsamlegt að fara þessa leið? Að hverfa frá vatnsorkunni í Þjórsá og yfir í háhitasvæði þarna suður með sjó, þetta er spurning 1. Svo langar mig í öðru lagi að spyrja þingmanninn — vegna þess að atvinnuástandið er því miður mjög bágborið suður með sjó, það er svæði sem hefur orðið útundan í atvinnuuppbyggingu að einhverju leyti og mikið kallað eftir atvinnu á almenna vinnumarkaðnum þar. Leggur þingmaðurinn trú á orð hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar þegar hann talar um það í fréttum og hér í þinginu að næg orka sé inni í kerfinu? Að nóg sé til af rafmagni þannig að ekki þurfi að fara í þessar aðgerðir, en það vanti bara kaupendur að orkunni.

Hvernig getur þetta gengið upp? Til dæmis Helguvíkurverkefnið er í uppnámi meðal annars vegna þess að þeir telja sig ekki fá umsamda orku til að koma verkefninu af stað. Hver er það sem segir ósatt í því máli?