141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og fyrir að vekja athygli á því samhengi sem er á milli þessa máls sem við ræðum hérna og þeirra niðurstaðna sem koma fram í skýrslu McKinsey sem var kynnt fyrr í haust. Í McKinsey-skýrslunni er ljóst að þeir tala um að það séu miklir möguleikar í sambandi við orkunýtingu og orkuframkvæmdir. Það er að vísu niðurstaða þar um arðsemi sem ég held að sé ekki algjörlega byggð á úthugsuðum niðurstöðum vegna þess að þeir virðast hluta í sundur orkugeirann annars vegar og stóriðjuna hins vegar en ekki skoða það í samhengi og virðisaukann í samhengi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann og kannski smætta þetta aðeins niður. Í þessari skýrslu erum við raunverulega að tala um Ísland í samhengi við umheiminn en mig langar til að smætta það niður í nærumhverfi hv. þingmanns. Hann býr nú skammt frá þar sem stóð til að byggja þrjár vatnsaflsvirkjanir og mig langar sérstaklega til að beina sjónum að einni þeirra í því samhengi að hv. þingmaður er dýralæknir og þekkir kannski betur til þeirra mála sem deilt er um þar heldur en við flest hin á Alþingi. Það eru rannsóknirnar á laxaseiðum og þær tilraunir sem hafa verið gerðar með fleytingar á laxaseiðum. Er hv. þingmaður (Forseti hringir.) þeirrar skoðunar að vel sé staðið að þeim tilraunum og að þær lofi góðu hvað varðar framtíðaráform um Urriðafossvirkjun?