141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:06]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekki hægt að ljúka þessu máli án þess að vera sanngjarn. Vissulega er rétt að núverandi ríkisstjórn hefur átt við mjög erfiðan fjárlagahalla að glíma og það hefur verið gríðarleg vinna fólgin í gerð fjárlaga undanfarin fjögur ár. Ríkisstjórnin á hrós skilið fyrir að hafa getað gert það þótt ég hefði kosið að nálgunin hefði verið önnur.

Ýmislegt sæmilegt hefur verið gert og gott og þar tel ég t.d. þrepaskiptingu tekjuskatts vera af hinu góða þó að deila megi um hversu lágt annað þrepið er. En ég sakna þess við þessi síðustu fjárlög ríkisstjórnarinnar eftir hrunið 2008 að þeir sem bera ábyrgð á hruninu og bera ábyrgð á þessari skuldsetningu skuli ekki sýna meiri auðmýkt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Stór hluti skuldanna er kominn til vegna gjaldþrots Seðlabankans vegna aðgerða fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og ég sakna þess að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sýni ekki örlitla auðmýkt í því að viðurkenna að þessi skuldastaða (Forseti hringir.) er Sjálfstæðisflokknum fyrst og fremst að kenna og þeir hefðu líka mátt geta þess í upphrópunum sínum í þingsal í dag.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að hér er verið að ræða um atkvæðagreiðsluna.)