141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

Íslandsstofa.

500. mál
[16:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp í stutta ræðu og greina frá mínu sjónarmiði í þessu máli. Ég rita undir nefndarálitið og er samþykk þeirri lendingu sem varð úr. Það er rétt sem fram kemur í nefndarálitinu og kom fram í vinnu nefndarinnar að taka þarf tillit til nokkurra sjónarmiða í þessu samhengi.

Ég hef fullan skilning á sjónarmiðum hagsmunaaðila en eins og fram kemur í nefndaráliti var einróma stuðningur hagsmunaaðila við þá fyrirætlun sem lögð var fram í frumvarpi hæstv. utanríkisráðherra um að festa markaðsgjaldið, fjármögnun Íslandsstofu, varanlega í sessi og gera það ótímabundið. Við það var fullur stuðningur hagsmunaaðila og þeirra sem vinna í þessum geira, og ég skil það vel sem gamall starfsmaður forvera Íslandsstofu, Útflutningsráðs. Ég man vel þá tíð þegar þetta kom til endurnýjunar annað hvert ár, að mig minnir. Þá fór óneitanlega tími og starfskraftar í að tryggja fjármögnunina og hafði í för með sér ákveðna óvissu í hvert skipti.

Á hinn bóginn má með rökum halda því fram að þegar tryggja þarf fjármögnun á þennan hátt þarf stofnunin, ríkisfyrirtækið eða fyrirtækið sem fær opinbert fé, að vera á tánum og sanna sig og vera viss um að geta sýnt fram á að fjármunum ríkisins sé rétt varið. Allt eru þetta rök í málinu.

Ég hefði væntanlega fallist á að gera þetta og hafði lýst þeirri skoðun minni að setja ætti þetta til framtíðar í lög en ég er mjög sátt við þá lendingu sem nefndin komst að, að festa fjármögnunina í sessi til fimm ára. Það er rakið í nefndarálitinu að skiptar skoðanir eru um þetta, eins og fram kom mjög sterklega í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins, og við höfum heyrt af vinnu hv. fjárlaganefndar sem gengur þvert gegn þeirri hugsun sem sett var fram í frumvarpi hæstv. ráðherra. Þetta er því ákveðin málamiðlun milli tveggja sjónarmiða og ég held að það sé skynsamlegt í þessu samhengi að tryggja Íslandsstofu fjármögnun með þessum hætti til næstu fimm ára. Þá er hægt að gera á því breytingar verði mörkuð skýr stefna um markaða tekjustofna almennt.

Það sem vakir fyrst og síðast fyrir mér í þessu máli er að stofnunin geti rækt sitt hlutverk vel, að það sé stöðugleiki í rekstrinum, að stjórnendur þar geti gert áætlanir til framtíðar og sinnt rekstrinum og því mikilvæga starfi sem þarna fer fram af eins miklum krafti og mögulegt er. Ég fellst á þau sjónarmið sem hér liggja að baki og styð frumvarpið með þessari breytingu.