141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:39]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sérstakt ánægjuefni að við erum nú við lok þessa árs að horfa fram til þess að geta lokið umræðu og afgreiðslu á endurskoðun upplýsingalaga. Það var mjög mikilsverður áfangi þegar Alþingi setti á sínum tíma upplýsingalög sem tóku gildi í ársbyrjun 1997, ef ég man rétt. Það eru 15 ár síðan. Ég hafði þá stöðu að vera formaður í Blaðamannafélagi Íslands og átti aðkomu að setningu þeirra laga. Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá að vera þátttakandi í því að koma að þessari vinnu aftur með góðum hópi fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem margir sem þekkja vel til þessara mála eiga sæti, m.a. annar fyrrum formaður í Blaðamannafélaginu og framsögumaður þessa máls, hv. þm. Róbert Marshall. Að fá tækifæri til þess að fara í yfirferð og endurmat og endurskoðun á þessum lögum eftir þann reynslutíma sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum hálfum öðrum áratug.

Eins og ég nefndi áðan var það mikil réttarbót þegar upplýsingalögin tóku gildi. Í dag búum við í umtalsvert breyttu samfélagi varðandi upplýsingamiðlun, skjalavörslu og ekki síst meðvitund almennings að því að eiga aðgengi að upplýsingum, gögnum og skjölum. Fjölmiðlar hafa á margan hátt rutt brautina í þeim efnum, en þetta snýr ekki síður að hinum almenna borgara. Að hans staða sé tryggð til að geta leitað þeirra upplýsinga sem óskað er eftir frá opinberum aðilum, hvort heldur er ríki eða sveitarfélögum.

Lögin voru mikil réttarbót á sínum tíma. Það hefur komið fram við yfirferð á lögunum núna á undanförnum þingum, sem hefur tekið drjúgan tíma eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að það eru auðvitað ýmsir þættir sem hefur þurft að skoða til að útvíkka, styrkja og bæta þessa lagaumgjörð. Ég get að mörgu leyti tekið undir þau orð sem hér hafa komið fram að það hafi kannski ekki verið nema til bóta að þessi umræða hafi tekið drjúgan tíma. Sumum finnst hún hafa tekið of langan tíma og að það hefði verið gott að vera búin að ljúka þessu fyrr, en staðreyndin er sú að upp hafa komið álitaefni og hlutir sem hefur verið full ástæða til að fara yfir og skoða alveg fram á síðustu yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sú vinna hefur verið mjög ítarleg.

Það hafa margir komið að umsögnum og umræðum með nefndinni. Auðvitað hafa ólík sjónarmið togast á, til dæmis hagsmunir hins opinbera, þ.e. Kerfið með stóru k-i sem hefur viljað tryggja sína stöðu, skapa sér ákveðinn rétt til að halda utan um sín gögn og sínar upplýsingar. Að sumu leyti skilur maður ákveðnar forsendur í þeim efnum, að aðilar hafi svigrúm og möguleika til að geta unnið að undirbúningi og ákveðin ferli séu til staðar í því að undirbyggja mál sem síðan verða að veruleika í formi ákvarðanatöku eða gagna. Það skiptir auðvitað öllu máli að það sé gegnsæi í þeim ferlum og að skýrar leikreglur séu um það hvenær og með hvaða hætti slík vinna á að vera opinber og aðgengileg almenningi.

Mér hefur fundist, sem sýndi sig líka í undirbúningi þessa máls fyrir rúmum 15 árum síðan, að meginatriði sem menn hafa þurft að horfa til lýtur að 8. gr., þ.e. vinnugögnum. Mjög drjúgur hluti nefndarinnar hefur farið í að skoða þau mál frá öllum sjónarhornum.

Ég verð að segja að þær athugasemdir og ábendingar sem komu fram m.a. frá forustu Blaðamannafélagsins í þeirri vinnu sem við höfum farið yfir voru mjög til góða. Þar bentu menn á að það væri á ákveðinn hátt verið að þrengja að upplýsingamiðlun og aðgengi að upplýsingum sem tengjast vinnugögnum frá hinu opinbera. Það er rétt að hafa í huga að á þeim 15 árum sem úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur starfað — sem var mjög skynsamleg leið til að tryggja að menn hefðu ákveðinn aðila til að úrskurða um þau álitamál sem komu upp þegar menn voru að þreifa sig áfram með þessi nýju lög — þá hefur hún tekið til umfjöllunar og afgreitt mál sem lúta að vinnuskjölum í yfir 50 tilfellum. Ég held að það sé enginn annar einstakur þáttur sem snýr að upplýsingalögum sem hefur fengið eins ríka umfjöllun og afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni og einmitt vinnugögn.

Úrskurðarnefndin hefur mótað sér mjög skýra mynd af því hvaða atriði þurfa að vera til staðar svo vinnugögn teljist lokuð bók eða séu skilgreind sem „vinnugögn“, innan gæsalappa, og ekki aðgengileg. Einnig hvað það er sem opnar þessi gögn og tryggir að aðgengi sé opið fyrir almenning. Þessi útfærsla og túlkun eins og hún hefur legið fyrir af hálfu úrskurðarnefndarinnar með vísan til þess lagaramma sem var í gildi skiptir mjög miklu máli að sé óbreytt frá því sem verið hefur, í mínum huga og okkar sem höfum farið yfir þetta mál.

Við erum að gera ákveðnar orðalagsbreytingar sem eru fyrst og fremst til að tryggja meiri og skýrari formfestu í því hvernig stjórnvöld eiga að haga sínum samskiptum innbyrðis, varðandi það að settar séu niður vinnunefndir eða starfshópar sem hafa tækifæri til að fara með upplýsingar sín á milli inn í stjórnkerfinu. En um leið og gögn eru sótt út fyrir stjórnkerfið til yfirferðar og umræðu, eða gögn sem lúta að ákveðnum upplýsingum eða jafnvel ákvarðanatöku flæða á milli í stjórnkerfi, án þess að það sé í einhverju formlegu vinnuferli eða starfshópi, þá eiga þau gögn að vera opin öllum almenningi.

Ég tel að það hafi tekist mjög vel til núna á lokaspretti þessarar vinnu að ná utan um þennan þátt mála og tryggja að hann sé útfærður í anda þess sem hefur verið úrskurðað og túlkað á þessum hálfa öðrum áratug samkvæmt þeim lögum sem áður voru í gildi. Það er margt sem er til mikilla bóta í þessum nýju lögum. Þau eru skýrari og veita almenningi ríkari rétt en áður var. Þar er líka fylgt eftir ákvæðum um að stjórnvöld verði að mæta samtímanum í því að halda utan um gögn og skráningu á þeim. Það er til lítils að tryggja almenningi rétt á því að geta sótt upplýsingar og gögn ef einstaklingar og fjölmiðlar hafa ekki yfirsýn yfir hvaða gögn eru til staðar. Þarna hefur verið akkillesarhæll af hálfu hins opinbera, að ná utan um sína skjalaskráningu svo sómi sé að. Ekki eingöngu hjá ríkisvaldinu heldur ekki síður hjá sveitarfélögunum. Það dugar ekki til eilífðar að halda því fram að þetta sé kostnaðarsöm vinna, þetta taki tíma, það þurfi að fá lengri fresti.

Það verður auðvitað að einbeita sér að því að ná utan um þessa vinnu, að minnsta kosti í samtíma og til framtíðar. Síðan má gefa sér lengri tíma til að vinna upp þann hala sem liggur fyrir ókláraður aftur í tímann. Við sýnum því hins vegar ákveðinn skilning að minni sveitarfélög, við miðum við íbúatöluna 1000, þurfi ákveðið svigrúm. Þau hafa minni getu, starfskrafta og væntanlega fjármuni til að sinna þessum málum, en innan ákveðins tíma fyrir árið 2015 þurfa menn að vera búnir að ljúka þessari vinnu og standa jafnfætis öðrum í því að geta haft þessi gögn og upplýsingar til reiðu þannig að allir sitji við sama borð hvar svo sem á landinu þeir búa.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í að ræða þessi mál. Ég ítreka það þó enn og aftur að ég fagna því sérstaklega að þessari vinnu sé lokið og því hvernig þessi gögn og þetta frumvarp til laga liggja hér fyrir. Um leið vil ég þakka fyrir góða og málefnalega samvinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á undanförnum mánuðum og missirum.