141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir ummæli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um starfsfólk Alþingis og nefndasviðs og ekki síður hinn vaska ritara umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur staðið sig með mikilli prýði.

Varðandi málið sem hér er til umræðu hef ég ekki þá sannfæringu fyrir þeirri niðurstöðu sem hér er lögð til sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lýsti. Hún lýsti því í ræðu sinni að meiri hlutinn teldi hafið yfir vafa að verið væri að stíga rétt skref með þeirri breytingu sem hér er á ferðinni. Ég er ekki sannfærður um það.

Ég viðurkenni það sem hv. þingmaður segir um það að það eru tveir mánuðir síðan málið kom inn í þingið þannig að það hefur svo sem legið fyrir og er að því leyti miklu betra en ýmis mál sem við höfum verið að ræða hér fyrr í dag þar sem frumvörpin komu fram á síðasta mögulega degi frests og sæta svo grundvallarbreytingum nóttina áður en á að afgreiða þau. Þetta er auðvitað allt annars eðlis. Við viðurkennum hins vegar að ákveðin mistök urðu í sambandi við útsendingu á umsagnarbeiðnum sem ollu því að við í nefndinni vorum kannski ekki meðvituð um þann ágreining sem fyrir hendi var fyrr en ansi seint.

Auðvitað höfum við reynt á síðustu dögum að átta okkur á grundvallaratriðum málsins og ég verð að segja að eftir þá umfjöllun finnst mér vera rök í málinu bæði með og á móti. Mér finnst vera rök fyrir breytingunni sem eru þau jöfnunarrök sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir nefndi. En án þess að ég vilji fara í langar umræður um þessi efni vil ég þó segja að það er nauðsynlegt þegar mál eru skoðuð í þessu samhengi að líta ekki bara á tekjurnar heldur horfa líka á kostnað sem sveitarfélög hafa, t.d. sveitarfélög sem hafa miklar tekjur af fasteignagjöldum vegna sumarhúsabyggða en hafa jafnframt mikinn kostnað af því líka. Það þarf því að skoða þetta í heildarmyndinni og ég er sammála því sem komið hefur fram hjá sveitarfélögunum sem mótmælt hafa þessari breytingu að nokkuð skorti upp á að þessi heildarmynd sé höfð í huga.

Staða sveitarfélaga er vissulega ólík og spurningin er þessi: Hversu langt ætlum við að ganga í að jafna stöðu sveitarfélaga? Ef við ætlum að ganga mjög langt í að jafna stöðu sveitarfélaga veltum við líka fyrir okkur hver er tilgangurinn með sjálfstæði sveitarfélaga. Ef sveitarfélög eiga bara að vera stofnanir eða stjórnvöld sem taka við peningum frá ríkinu til að veita íbúunum tiltekna þjónustu er svigrúmið fyrir sjálfstæði sveitarfélaganna ekki mikið. Í sjálfstæði sveitarfélaga felst að þau geti verið ólík og þess vegna þarf með vissum hætti að horfa á þessa þætti þegar menn fara í jöfnunaraðgerðir.

Nú ætla ég ekki að mótmæla tilvist Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í þessari umræðu eða hafna því að nauðsynlegt geti verið að beita jöfnunarframlögum til að mæta ýmsum hlutum, þar á meðal til að tryggja að fjárvana sveitarfélög geti staðið undir lágmarksþjónustu, ég er alls ekki að hafna því. Ég verð hins vegar að segja að mér líður alla vega ekki vel með það, hæstv. forseti, að vera að krukka í þessar forsendur úthlutunar úr jöfnunarsjóði án þess að hafa þá heildarmynd sem mér finnst að mig skorti þó að málið hafi verið til umræðu á vettvangi ráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en það kom hingað inn. Þess vegna treysti ég mér ekki til að standa að þessu nefndaráliti eða standa að þessu frumvarpi. Ég er ekki sannfærður um að þarna sé verið að stíga rétt skref. Ég er ekki sannfærður um að sú niðurstaða sem liggur á borðinu sé sanngjörn gagnvart þeim sveitarfélögum sem munu bera skarðan hlut frá borði verði þessi breyting samþykkt og mun því ekki styðja þetta mál.