141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í sömu erindagjörðum. Ýmislegt hefur gengið á í samskiptum okkar við hæstv. umhverfisráðherra, en mér finnst sá tónn sem hún sendir í svarbréfi, þegar við óskum eftir því að fá fund með henni í dag vegna þess að brýna nauðsyn beri til, ekki ásættanlegur. Fundinn þarf ekki bara að hafa vegna þeirra aðstæðna sem hv. þingmaður rakti hér á undan heldur líka vegna fjárhagslegrar afkomu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er að setja saman fjárhagsáætlun undir leiðsögn eftirlitsnefndar sveitarfélaganna og sú áætlun er í uppnámi vegna þeirrar ákvörðunar hæstv. umhverfisráðherra að veita ekki þessa undanþágu. Þetta vildum við ræða.

Fulltrúar sveitarfélagsins eru í bænum í dag. Við erum að fara inn í jólahátíðina. Það er ömurlegt til þess að vita að við getum ekki tekið hálftíma í að fara yfir þessi mikilvægu mál með fulltrúum þessa sveitarfélags (Forseti hringir.) með þetta að markmiði. Ég vil ítreka að ég held að við getum í sameiningu fundið á þessu viðunandi lausn (Forseti hringir.) en til þess þarf fólk að tala saman.