141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ræði hér um frumvarp um breytingar á barnalögum. Ég get ekki með nokkru móti, frú forseti, fellt mig við þá tillögu frá ráðuneytinu að ekki verði af gildistöku laga sem fóru í gegnum þingið í vor og sumar. Ég get ekki fellt mig við það.

Mig langar í örstuttu máli að fara yfir forsöguna. Við í velferðarnefnd, sem höfum starfað þar saman í nokkurn tíma, höfum reynt að einsetja okkur að vinna saman. Kallað hefur verið á það allt þetta kjörtímabil að þingmenn úr öllum flokkum reyni að vinna saman, komi sér saman um eina niðurstöðu og horfi til þess sem sameinar en ekki til þess sem sundrar. Í þessu máli varðandi barnalögin gerðum við það. Það var erfitt og ég var ekki fullkomlega ánægð með allt það sem fór þar í gegn. En með áðurnefnd sjónarmið í huga sætti ég mig við að tala við þá sem með mér sátu í nefndinni og reyna að komast að niðurstöðu. Það varð til þess að frumvarpið fór í gegn mótatkvæðalaust.

Við sem sátum í nefndinni lögðum höfuðáherslu á að þau ákvæði er varða sáttameðferð yrðu að veruleika. Við lýstum í nefndaráliti áhyggjum af því að þessari leið mundi ekki fylgja nægilegt fjármagn, en ljóst er að embættin munu þurfa að standa straum af einhverjum kostnaði vegna þessarar sáttameðferðar. Áður en málið kom hér til atkvæða vorum við fullvissuð um að fjármagn kæmi í þessar breytingar. Þverpólitísk samstaða var um þessar breytingar og í þær átti að koma fjármagn.

Nú stöndum við hér. Það er búið að samþykkja fjárlögin og það er augljóst að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlaði sér ekki að standa við það að láta þessi lög taka gildi. Það er ekki gott. Það þýðir að menn hafa ekki staðið við orð sín. Menn hafa ekki staðið við það að stuðla að því að við hér í þinginu vinnum saman. Ég legg áherslu á að menn átti sig á því hvaða yfirlýsingar er verið að gefa. Ég hef af því miklar áhyggjur. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með að sjá að til standi að fresta gildistöku laganna.

Í þessum lögum er ekki einungis verið að lögfesta ákvæði er varða hina svokölluðu sáttameðferð. Ég tel að nær hefði verið, fyrst ráðuneytið hafði augljóslega langan tíma til að hugsa þessar tillögu sína, að fram hefði komið frumvarp sem frestaði aðeins þeim ákvæðum sem varða sáttameðferðina og tengdum ákvæðum, þau eru alls ekkert öll tengd þessu atriði. Sem dæmi má nefna 1. gr., varðandi réttindi barns. Þar er farið yfir þau grundvallaratriði sem við teljum að barn eigi rétt á. Í 28. gr. á síðan að kom inn skilgreining á því hvert inntak sameiginlegrar forsjár sé. Þetta þarf allt saman að bíða af því að kerfið er ekki tilbúið. Í þessu máli er Alþingi, verði þetta að veruleika, að segja: Já, það er kerfið sem er aðalatriðið en ekki fólkið og réttindin sem lögin eiga að tryggja börnum og foreldrum þeirra.

Ég get ekki fellt mig við þessa aðferðafræði. Ég get ekki fellt mig við að málið komi hér fram á síðustu stundu þannig að nefndarmenn í velferðarnefnd, sem eru allir af vilja gerðir og hafa þá skoðun að lögin eigi að taka gildi, þurfi að sitja uppi með að taka ákvörðun sem þessa. Ég get ekki fellt mig við það. Ég mun þess vegna ekki greiða því atkvæði að lögunum verði frestað, ég tel engar forsendur til þess. Ef við hér á Alþingi ætlum að standa við þau stóru orð að ráða og hafa áhrif á það hvernig löggjöfin er þurfum við að sýna það í verki. Við gerum það með því að hafna því að fresta gildistöku laganna.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á það að í núgildandi lögum er vissulega fjallað um sáttameðferð og í núgildandi lögum eru ákvæði um sáttameðferð. Það er ekki eins og þeir ágætu menn sem starfa á sýslumannsembættunum og stjórna þeim þekki ekki til þess að koma málum í sáttaferli. Það er jafnframt svo að til eru aðilar sem sérhæfa sig í þessu. Á meðan ráðuneytið er að finna út úr því hvernig það vill hafa sáttameðferðina í öllum smáatriðum til framtíðar er til leið sem hægt er að fara. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, herra forseti, að lögin sem við afgreiddum hér í mikilli sátt fyrir síðasta sumarhlé verði að veruleika. Ég mun því ekki styðja það að gildistöku þeirra laga verði frestað.