141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið fjölmarga fulltrúa hinna ýmsu samtaka og velferðarráðuneytisins á sinn fund, auk fulltrúa frá umboðsmanni barna og Barnaheillum Ingólf V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands, og fulltrúa frá Jafnréttisstofu. Þá fengum við einnig fulltrúa frá Mannréttindastofu. Nefndinni bárust líka nokkrar umsagnir um málið.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar. Ein þeirra lýtur að lengingu fæðingarorlofsins úr 9 mánuðum í 12 og hækkun hámarksgreiðslna úr 300 þús. kr. í 350 þús. kr. á mánuði. Þá er foreldrum aftur veittur réttur til 80% af meðalheildarlaunum í fæðingarorlofi á tilteknu viðmiðunartímabili.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að sá tími sem foreldrum er heimilað að dreifa fæðingarorlofinu á verði styttur úr 36 mánuðum í 24 mánuði. Í frumvarpinu felst einnig mikilvæg breyting sem heimilar foreldrum alvarlega veikra barna eða barna með alvarlega fötlun að lengja sameiginlegt fæðingarorlof foreldra um allt að 7 mánuði jafnvel þó að barnið hafi ekki þurft að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu eins og lögin kveða á um nú.

Nefndin leggur til tvær veigamiklar breytingar á frumvarpinu. Sú fyrri lýtur að lengingu orlofsins. Samkvæmt frumvarpinu á að lengja fæðingarorlofið í skrefum úr 9 mánuðum í 12 og hefst lengingin árið 2014 og verður að fullu komin til framkvæmda árið 2016. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að þegar fæðingarorlofið verði orðið 12 mánuðir árið 2016 skiptist það þannig að foreldrar eigi hvort um sig 4 mánaða rétt en að sameiginlegur og framseljanlegur réttur þeirra verði 4 mánuðir.

Reynslan sýnir að mæður taka yfirleitt sameiginlega réttinn í fæðingarorlof og hefur það því í flestum tilfellum verið þannig að mæður taka 6 mánuði og feður 3. Miklar líkur eru á því að mæður taki 8 mánuði í fæðingarorlof, verði þessi breyting að lögum, en að faðirinn taki 4, eða hitt foreldrið, en það væri ekki í anda jafnréttishugsunar laganna.

Fram komu þau sjónarmið í umræðum að lögin ættu að heimila hvoru foreldri um sig sjálfstæðan rétt til 6 mánaða fæðingarorlofs og ekki yrði um sameiginlegan rétt að ræða. Meiri hlutinn telur þó að þar sé dregið mjög úr sveigjanleika barnafjölskyldna til þess að skipuleggja tímann frá vinnumarkaði fyrir foreldrana og telur eðlilegt að mæta betur jafnréttishugsjón laganna með því að skiptingin í mánaðafjölda verði 5 sem sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig og 2 sameiginlegir mánuðir. Sú breyting taki þannig gildi að á næsta ári yrði þetta óbreytt eins og það á að vera samkvæmt frumvarpinu, á árinu 2014 væri sjálfstæður réttur foreldra 3,5 mánuðir en sameiginlegur tími 3. Á árinu 2015 yrði sjálfstæður réttur beggja foreldra 4 mánuðir en sameiginlegir mánuðir 3 og á árinu 2016 yrði sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig 5 mánuðir en sameiginlegir og framseljanlegir mánuðir 2. Þannig teljum við að börnum verði tryggður réttur til samvista við báða foreldra sína í frumbernsku og að staða kvenna og karla á vinnumarkaði verði jafnari. Við teljum að það breyti miklu hvort munurinn á milli kvenna og karla á vinnumarkaði yrði sá að konur tækju að jafnaði 8 mánuði í fæðingarorlof og karlar 4 eða að konur tækju að jafnaði 7 mánuði í fæðingarorlof og karlar 5. En að sjálfsögðu er það eftirsóknarvert að foreldrar fái bæði jöfn tækifæri til að vera með börnum sínum í frumbernsku og hugsa um þau og það er að sjálfsögðu markmið laganna.

Þá er önnur veigamikil breyting sem nefndin gerir sem er í anda frumvarps sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði fram á 138. og 140. löggjafarþingi. Nefndin fjallaði um þessi frumvörp á fyrri þingum og var almennur stuðningur við þau þó að ekki hefði náðst að afgreiða þau sem lög frá Alþingi. Nefndin leggur til í anda þess frumvarps að sú breyting verði lögð til á lögunum að einhleypar mæður sem eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun og einhleypir sem ættleitt hafa barn eða tekið barn í varanlegt fóstur ættu rétt á níu mánaða orlofi, sem er þá fullt fæðingarorlof miðað við lögin eins og þau eru í dag. Við leggjum þessa breytingu til og hún gildir um einhleypt foreldri sem undirgengst tæknifrjóvgun eða ættleiðir barn eða tekur í varanlegt fóstur. Þetta er til að tryggja að þau börn þar sem annað foreldri er sannarlega ekki til staðar fái notið tíma með foreldri til jafns við önnur börn.

Nefndin bendir á að líkja megi aðstæðum þessa hóps foreldra við aðstæður eftirlifandi foreldra þegar hitt foreldrið hefur andast á meðgöngu barnsins eða skömmu eftir fæðingu þess og fjallað er um í 4. mgr. 8. gr., 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laganna, en þar eru þröngar undanþáguheimildir til að framselja rétt við slíkar aðstæður. Með þessari breytingu er komið til móts við réttindi þessa hóps barna til að njóta samvista við foreldri sitt eins og ég hef getið um áður.

Þá eru hér breytingar sem eru kannski minni í sniðum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sá tími sem heimilt er að dreifa fæðingarorlofinu á styttist úr 36 mánuðum í 18 mánuði, en nefndin fjallaði um þetta og telur óþarft að draga svo úr sveigjanleika barnafjölskyldna til að skipuleggja fyrstu tvö ár barnsins, sérstaklega í ljósi þess að mörg börn hafa ekki fengið leikskólapláss við 18 mánaða aldur en langflest eru komin inn á leikskóla við 24 mánaða aldur sé það ósk foreldranna. Við leggjum því til að í stað þess að þessi tími verði 18 mánuðir, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, verði hann 24 til þess að veita ungbarnafjölskyldum meiri sveigjanleika í annars svona frekar flókinni tilveru sem lýtur að því að tryggja barninu umönnun þó að það sé ekki komið með dagvistunarpláss.

Svo er breyting tæknileg eðlis. Það hefur gleymst í upptalningu, sem skiptir miklu máli, að til meðalheildarlauna foreldris reiknist þær greiðslur sem hefðu átt að koma til hjá einstaklingum sem hafa fengið greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa, sem þýðir að fólk hefur unnið hjá fyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota og fá að lokum greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa. Og þó að fólk hafi kannski ekki fengið laun á þriggja mánaða tímabili eða tveggja eða hvað það kann að vera þá hefði það samkvæmt öllu átt fyrir vinnuframlag sitt að fá ákveðin mánaðarlaun þó að það hafi verið svikið um það af atvinnurekanda, þannig að það verði tryggt að fólk fá það reiknað sem viðmiðunartekjur þó að þær hafi aldrei verið reiddar af hendi.

Þá nefnir meiri hlutinn það, fer yfir það í nefndaráliti sínu, að leggja verði mikla áherslu á að hækka greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Halli var á Fæðingarorlofssjóði og því hefur hlutfall tryggingagjalds sem rennur í sjóðinn verið hækkað tímabundið úr 1,08% í 1,28%. Í gegnum tíðina hefur oft verið svona frekar ótraustur grunnur fyrir fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs og tryggja þyrfti að sjóðurinn væri ávallt fjármagnaður í samræmi við þörf en ekki væri verið að sækja fé, eins og var gert hér áður fyrr, í Atvinnuleysistryggingasjóð því að atvinnuleysi var svo lítið en ásóknin í Fæðingarorlofssjóð meiri en áætlað var. Það þarf auðvitað að sjá til þess að fjármögnun fyrir sjóðinn sé tryggð óháð því hvernig árar í samfélaginu.

Samkvæmt minnisblaði frá velferðarráðuneytinu stendur 1,08% hlutfallið af tryggingagjaldi undir 12 mánaða orlofi og núverandi greiðsluþaki en eftir því sem hagur ríkissjóðs vænkast er mikilvægt að rík áhersla verði lögð á að hækka þakið í fæðingarorlofsgreiðslum til þess að tryggja betur hag barnafjölskyldna.