141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við erum að ræða um ársreikninga. Það skiptir verulegu máli að þeir sýni rétta stöðu. Eins og ég gat um leikur vafi á því að eigið fé fyrirtækja sé rétt skráð. Það er tiltölulega einfalt og hægt að gera nánast viðstöðulaust að auka eigið fé með því að láta hlutafé fara í hring. Nú er spurning hvort það brjóti einhverjar reglur, óskrifaðar eða skrifaðar reglur. Mér er ekki kunnugt um það. Fyrir hrun var þetta mjög ítarlega gert og virðist ekki hafa verið refsivert nema því tengdist eitthvað annað, eins og til dæmis að hafa áhrif á gengi hlutabréfa eða eitthvað slíkt, markaðsmisnotkun, þá var það refsivert. Ég sé enga einfalda lausn á þessu en ég vildi gjarnan að nefndin fjallaði um það hvort ársreikningar sýndu rétta mynd af stöðu hlutafélaga varðandi eigið fé og þess yrði þá getið sérstaklega að menn skyldu vara sig á því að nefna eigið fé fyrirtækja.

Önnur leið væri að stjórn hlutafélags gæfi yfirlýsingu til hluthafa á fundi um að þeir stunduðu ekki slíka hringferla sem felast í því að kaupa í einhverjum forföður fyrirtækisins, þ.e. í hlutafélagi sem aftur á hlutafélag, sem aftur á hlutafélag sem á svo í fyrirtækinu, þeir mundu lofa því að fjárfesta ekki í slíkum aðila, alla vega ekki meðvitað, og í öðru lagi að þeir mundu þá ekki lána til slíks aðila. Það er líka hægt að búa til hringferla með því að blanda saman hlutafjárkaupum og lánveitingum. Það gæti verið ein leið að skylda menn til að gefa út slíka yfirlýsingu og þar með væri komin ákveðin siðferðileg krafa og jafnvel refsiverð ef menn gefa yfirlýsingu um eitthvað sem er þá rangt ef það skyldi koma til.