141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt hluti af minni ræðu að gagnrýna þá aðferðafræði sem hefur verið beitt einfaldlega vegna þess að ég tel að það hafi verið svo risavaxið verkefni að ætla sér að skrifa heila nýja stjórnarskrá fyrir utan það að í raun og veru var ekki tilefni til þess. Alveg eins og hv. þingmaður sagði var auðvitað í fyrsta lagi búið að endurskoða ýmsa kafla stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi er það ljóst mál að mjög margir hlutir í stjórnarskrá okkar eru í prýðilegu lagi og hafa reynst vel, t.d. reynst skjól fyrir borgara landsins í hruninu. Það lá hins vegar fyrir að mjög ríkur vilji var fyrir því í þinginu, og hefur verið, að taka tiltekna hluta stjórnarskrárinnar til efnislegrar meðferðar og það hefði verið það skynsamlega sem hægt var að gera. Eins og verið er að tefla málinu sýnist mér hins vegar núna að æ erfiðara verði að fara í þá aðferð vegna þess að ákvæðin eru hvert um sig risavaxin verkefni í sjálfu sér, eins og til að mynda þjóðarnáttúruauðlindirnar, valdaframsalið og hlutverk forsetans, og við erum komin svo ótrúlega stutt í öllum þeim efnum að leiðsögnin sem við þyrftum að fá er ekki komin nema að svo takmörkuðu leyti.

Þegar mannréttindaákvæðið var sett kallaði það á heilmikla vinnu. Það kallaði á samstöðu. Það var auðvitað unnið út frá mannréttindasáttmála Evrópu, mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna o.s.frv., miðað við það sem þá lá fyrir. Engu að síður kallaði það á málaferli þótt við værum bara að fjalla um það afmarkaða mál, þótt við hefðum haft þennan langa aðdraganda og náð svona mikilli pólitískri samstöðu. Samt sem áður urðu málaferli á grundvelli þess þar sem menn vildu láta reyna á þennan mögulega nýja rétt sinn. Hvað halda menn að gerist í því sem við erum með núna? Það blasir auðvitað við öllum.