141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að það sé rétt sem hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar að ríkisstjórnin og stjórnarliðar geri sér grein fyrir því að málið sé ekki tækt til þeirrar afgreiðslu sem því er ætlað að fá á grundvelli þessa frumvarps með breytingartillögum sem núna liggja fyrir. Samt sem áður sér maður það ekki, hvorki í umræðunni né í þeim viðbrögðum sem hafa komið fram hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hann virðist ekki líta svo á að málið sé ekki tækt til efnislegrar afgreiðslu. Við tökum eftir því að þegar reynt hefur verið að ræða þessi mál og velta upp hvort ekki gæti orðið á einhverjum tímapunkti samkomulag um að taka fyrir einstaka þætti sem ætla megi að þingið telji mikilvægasta til afgreiðslu í þessum efnum hefur því verið einfaldlega svarað þannig að í boði sé að taka frumvarpið eins og það liggur fyrir með breytingartillögum til efnislegrar niðurstöðu. Þetta finnst mér að geti kallast að gera sér ekki grein fyrir því í hvaða stöðu málið er komið.

Það hefur vakið athygli mína þegar ég hef farið yfir þessi mál í nefndum sem ég sit, velferðarnefnd og atvinnuveganefnd, að fyrir utan ýmsar alvarlegar athugasemdir um einstaka efnisgreinar frumvarpsins eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við greinargerðina. Þegar maður hugsar til baka held ég að ekki sé mjög algengt að athugasemdir frá umsagnaraðilum eða sérfræðingum lúti svona mikið að greinargerðinni. Greinargerðir eru yfirleitt skrifaðar með það í huga að reyna að varpa ljósi á viðkomandi frumvörp. Því er hins vegar ekki til að dreifa hérna. Þetta er einhver lýsing á forsögu málsins, sagnfræðileg skráning á því sem hefur gerst í stjórnlagaráði og hvernig sérfræðinganefndin síðan leit á sín mál. Það er rétt sem prófessor Björg Thorarensen segir til að mynda um 34. gr. að greinargerðin með henni sé ónothæf sem lögskýringargagn (Forseti hringir.) til framtíðar og þyrfti að endurskrifa frá grunni.