141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á fyrri stigum í þessari málsmeðferð hafði ég einmitt áhyggjur af því að verið væri að setja fram í kosningaákvæði 39. gr. ansi mörg markmið sem færu hugsanlega illa saman, þ.e. það gæti orðið töluvert flókið að samræma öll þessi mismunandi markmið. Ég tek alveg mark á því þegar menn segja að það kunni að vera hægt varðandi marga af þessum þáttum. Ég held að tæknilega sé hægt að útbúa kosningakerfi sem geri ráð fyrir þáttum eins og tiltölulega jöfnu vægi atkvæða, tiltölulega réttri hlutfallsútkomu, þ.e. að styrkur flokka á þingi sé í samræmi við hlutfallslegt fylgi þeirra í kosningum, og að hægt sé að útbúa leiðir þar sem persónukjör komi við sögu. Einhvers konar sambland kjördæmakjörs og landskjör er ekki óþekkt en þegar svona margar mismunandi breytur eru komnar inn í reikningsdæmið verður dálítið flókið að útfæra það þannig að öll markmiðin náist.

Það sem snýr hins vegar að sem jafnastri útkomu karla og kvenna er svolítið flóknara vegna þess að það snýr ekki með sama hætti að kosningareglunum sjálfum heldur að úrslitunum. Ég held að það sé erfiðara að setja fram reglu sem gerir ráð fyrir úrslitum sem fela í sér tiltölulega jafna stöðu karla og kvenna. (Forseti hringir.) Ég held einfaldlega að þar þurfi flokkarnir og kjósendur að standa sig í stykkinu.