141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

aðgangur fjárlaganefndar að gögnum.

[13:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Fyrst vil ég árétta það sem kom fram í umræðu okkar síðastliðið haust að vinnuskjöl sem ganga á milli ráðuneyta lúta ekki trúnaðarskyldu samkvæmt upplýsingalögum. Þinginu er í sjálfsvald sett að óska eftir hverjum þeim upplýsingum sem það telur þörf á til að rækja skyldur sínar.

Það sem ég vil vekja athygli á við þessa umræðu er að í sjálfu sér er gott og gilt að setja sér þau markmið sem koma fram í annars ágætri grein hæstv. ráðherra um að opna aðgengi almennings að þessum gögnum. En frumskylda okkar hlýtur að vera sú að þingið hafi aðstöðu til þess, og fjárlaganefnd eins og hún hefur verið mjög samstiga um, að rækja þá skyldu sína að rýna þær upplýsingar sem frá stjórnvöldum eru lagðar út á þessar sömu upplýsingaveitur. Fyrst af öllu teldi ég því að við ættum að koma þeim verkferlum í lag áður en við færum að íhuga hvernig við ætlum að birta upplýsingar sem hugsanlega hafa ekki verið rýndar. Það er þetta sem ég er að kalla eftir.

Ég vil einnig inna hæstv. ráðherra eftir upplýsingum um það hvað líði (Forseti hringir.) framkvæmd þeirrar þingsályktunar sem samþykkt var í júní 2010 sem er eldri en fjáraukalagagerðin fyrir síðasta ár.