141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Nú þegar styttist í þingkosningar verðum við áþreifanlega vör við hvernig einstakir stjórnmálaflokkar ætla að haga málflutningi sínum í kosningabaráttunni. Hér er með því vísað sérstaklega til þess sem við sjáum úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna.

Það leynir sér ekki á skrifum úr þeirra herbúðum að málflutningurinn mun fyrst og fremst verða á neikvæðum nótum. Núna heitir það til dæmis þar á bæ að þegar talað er um að ekki megi gleyma því að hér varð hrun sé það þreyttur frasi og sá tími sé liðinn. Það á sem sagt að moka algerlega yfir fortíðina og tala eins og það hafi engir atburðir orðið hér árið 2008. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja upp með í kosningabaráttunni. Meira að segja á þeim neikvæðu nótum heyrist sagt að formaður Sjálfstæðisflokksins sé á fundum með félögum sínum í kjördæminu að tala um að jeppakarlarnir verði að hringja í neyðarlínu umhverfisráðuneytisins til að fá leyfi til að aka aftur inn á slóðana sem þeir aka út af. Er það tónninn sem á að einkenna kosningabaráttuna, frú forseti? Það er alveg með ólíkindum ef svo er.

Það er mikilvægt að hafa í huga að meginmunurinn á núverandi ríkisstjórn og ég vil segja stjórnarandstöðu, þótt það eigi einkum og sér í lagi við um Sjálfstæðisflokkinn, hefði að öllum líkindum orðið sá hvernig kreppan kæmi niður á almenningi. Það geta allir talað gegn skattahækkunum en árið 2009 var ríkiskassinn tómur eftir skipbrotsstefnu Sjálfstæðisflokksins. Þeir hefðu hækkað skatta en kannski hefðu þeir hlíft þeim efnameiri, örugglega útgerðinni. Þeir skattar hefðu lent á öðrum.