142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er ástæða til að taka það fram og láta stjórnarþingmenn og ríkisstjórnina vita af því að við munum hafa eftirlit með áherslum þeirra í umhverfismálum. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur, eins og farið er af stað, af þeim áherslum sem birtast í málflutningi ríkisstjórnarinnar og sérstaklega í því hvernig samsetning ríkisstjórnarinnar er og hvað er gert með umhverfisráðuneytið. Gott og vel.

Þetta byrjaði ekki vel vegna þess að talsmenn ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki töluðu um að nú þyrfti að taka upp rammaáætlun, hvað sem það felur í sér. Hæstv. fjármálaráðherra notaði reyndar það orðalag í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Það má hins vegar heyra á málflutningi hæstv. umhverfisráðherra að kúrsinn hafi verið leiðréttur svolítið og til dæmis í Ríkisútvarpinu í gær sagði hann að sú verkefnisstjórn sem nú hefði tekið við málinu mundi halda áfram með málið. Það er fagnaðarefni. Það er alveg í samræmi við þær áætlanir og áherslur sem menn hafa verið með í þeim efnum. Það er nefnilega mjög mikilvægt að halda ferlinu í gangi. Mér sýnist hæstv. umhverfisráðherra vera kominn inn á þá braut.

Það má spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann eigi nákvæmlega við þegar hann talar um það í umræðum um stefnu forsætisráðherra að taka upp rammaáætlun.

Ég vil líka leggja áherslu á að ef menn ætla að halda áfram með það verkefni sem blasir við í Helguvík, og ég fyrir mitt leyti hef alltaf haft miklar efasemdir um, kallar það á mikla orkuöflun. Ef menn ætla að vera með þær áherslur sem birtust í málflutningi og ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að einbeita sér að því að virkja ár frekar en jarðvarma, erum við að tala um allar helstu náttúruperlur Suðurlands þegar kemur að því að skaffa orku: Þjórsána, Hólmsá og Skaftána. Það þarf því að ræða áður en lengra er haldið.

Ég vil rétt bæta því við, þó að áhættusamt sé orðið að geta sér til um fyrirætlanir hér, að við í Bjartri framtíð (Forseti hringir.) hyggjumst flytja tillögu um eigendastefnu Landsvirkjunar í haust. (Forseti hringir.)