142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ekki svo mikið andsvar sem önnur ræða. Hv. þingmaður getur ekki komið hér og reynt að hnýta því í mig eða Samfylkinguna að við tölum niður skuldavanda heimilanna. Þegar ég tók við sem félagsmálaráðherra var bannað að afskrifa skuldir á fólk í þessu landi. Það var arfleifð ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ég þigg ekki lexíur frá framsóknarmönnum um það hvernig eigi að fara að því að búa til réttláta umgjörð fyrir skuldug heimili.

Ég ætla líka að segja það hér að orðalagið sem hv. þingmaður hnýtti í mig fyrir, orðið verðbólguskot, er fengið út tillögu hans eigin forsætisráðherra. Þetta er ekki mitt orðalag, þetta stendur í stjórnarsáttmálanum og þetta stendur líka hér í þessari tillögu. Ég hef hnotið um þetta orðalag, mér finnst þetta mjög skrýtið. Ég hef þvert á móti talað um þennan fordæmalausa vanda aftur og aftur, hin stökkbreyttu lán, og það er fullkomlega ósanngjarnt að fólk sitji uppi með þau. Þess vegna vorum við í kosningabaráttunni með ýmsar hugmyndir um hvernig taka ætti á þeim vanda.

Við viljum hins vegar ekki skapa almenna væntingu um það, eins og framsóknarmenn eru að gera hér í dag, að öll verðbólguskot verði alltaf bætt. Orðið verðbólguskot er frá framsóknar- og sjálfstæðismönnum komið, orðalagið „að leiðrétta verðbólguskot“ er að finna í stjórnarsáttmálanum sjálfum og hv. þingmaður á að spara sér digurmæli í minn garð vegna þeirra orða og beina þeim að sínum eigin forsætisráðherra.