142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra er nú dálítið kominn í hringi, finnst mér, því að hér er talað um að vinna hlutina almennilega. Látum það standa „að vinna hlutina almennilega“ og vísa ég þá enn og aftur í þau frumvörp sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram án samráðs við nokkurn þann sem hefur með málið að gera. Þá þarf ekki að vinna hlutina almennilega, þá liggur á.

Er svo sanngjarnt, hæstv. forseti, að forsætisráðherra segi að fyrri ríkisstjórn hafi ekkert gert? Hvernig í ósköpunum er hægt að eiga eðlileg orðaskipti við menn sem tala á þessum grunni? (Gripið fram í: Allt gott fyrir fjórum árum.) Stórkostleg staða sem komið var að.

En ég vil árétta að það sem framsóknarmenn skulda þjóðinni þá — látum þá að því liggja að við séum hér að sauma að Framsóknarflokknum með einhverri meinbægni með því halda því fram að allt hafi átt að gerast strax en það hafi í raun aldrei verið þannig og að Framsóknarflokkurinn hafi alltaf sagt að þetta þyrfti tíma og útfærslur og allt það. Ég held bara, virðulegur forseti, að þjóðin hafi upplifað það dálítið þannig í aðdraganda kosninga að þetta ætti bara að koma strax. Þá vil ég beina því til hæstv. forsætisráðherra að hafa í sér döngun til þess að horfa framan í þjóð sína og segja henni hversu lengi hún þurfi að bíða. (Gripið fram í.)