142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni greinaskrif undanfarna daga. Í grein hæstv. forsætisráðherra í gær í Morgunblaðinu gerir hann að umtalsefni loftárásir stjórnarandstöðunnar og talar um fyrsta mánuð í loftárásum. (Gripið fram í: Fjölmiðla.) Og loftárásum fjölmiðla.

Í dag tekur ritstjóri Morgunblaðsins í leiðara upp orð hæstv. forsætisráðherra og leggur sérstaka áherslu á hlutverk RÚV í þessum loftárásum. Það sem ég vil gera er að setja þetta í samhengi við tillögur hæstv. menntamálaráðherra um breytingar á skipan stjórnar RÚV. Mér finnst erfitt að lesa greinar hæstv. forsætisráðherra og ritstjóra Morgunblaðsins öðruvísi en sem nánast berar hótanir í garð fjölmiðla og þá ríkisfjölmiðilsins sérstaklega.

Það sem er í gangi að mínu viti núna er áhlaup á RÚV úr mörgum áttum, áhlaup sem ég held að við ættum að hafa allverulegar áhyggjur af.