142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:57]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stefna þessara stjórnvalda hefur verið að afturkalla þær skerðingar sem fyrri ríkisstjórn fór í. Það sem er markmiðið með þessu frumvarpi er að hefja það ferli og þetta er fyrsta skrefið í átt að því.

Eins og kemur fram í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofunnar, sem ég er, kannski ólíkt fyrrverandi velferðarráðherra, ekkert allsendis ósátt við, er einmitt talað um þar að þegar bráðabirgðaákvæðið fellur úr gildi muni bætast við rúmir þrír milljarðar sem allt að því 70% lífeyrisþega munu njóta góðs af.

Það sem hins vegar stakk mig eilítið þegar verið var að fara yfir fjárlagagerðina hjá fyrri ríkisstjórn var að það virtist alls ekki hafa verið gert ráð fyrir því að þessi bráðabirgðaákvæði ættu að falla úr gildi heldur virtust það vera áform fyrri ríkisstjórnar að framlengja þessar skerðingar.

Það sem þetta frumvarp gengur út á er að hefja þetta ferli, afnema skerðingar, bæta kjör lífeyrisþega og þetta er fyrsta skrefið í átt að því. Ástæðan fyrir því að ég treysti mér til þess að koma hér inn á sumarþingið með þetta mál er að ég hef það mikla trú á efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að ég treysti mér til þess að mæla fyrir frumvarpi sem mun kosta 850 milljónir á þessu ári og, eins og fjárlagaskrifstofan talaði um, 4,6 milljarða á næsta ári.