142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er góðra gjalda vert af hæstv. ráðherra að koma fram með frumvarp sem hefur að markmiði að draga skerðingar til baka. En ráðherra með framtíðarsýn getur ekki bundið sig við að horfa bara á verk fyrri ríkisstjórnar, hann hlýtur að horfa fram á við. Stefnumörkun sú sem unnið hefur verið eftir í almannatryggingamálum á undanförnum árum hefur miðað að því að breyta almannatryggingakerfinu. Þar af leiðandi hefur ekki verið horft til þess fyrst og fremst að reyna að komast aftur til þess stórgallaða kerfis sem við bjuggum við 2009 heldur frekar að nýta vaxandi fjármuni til þess að ná árangri í að byggja upp betra almannatryggingakerfi.

Einn liður í því hefur verið hugmyndin um að koma á nýju almannatryggingakerfi en breytingarnar sem hér eru lagðar til falla ekki í sömu átt og þær tillögur. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra: Felst í þessu ákvörðun hennar um að vinna ekki eftir þeirri niðurstöðu sem búið er að ná þverpólitískri sátt um og sátt við aðila vinnumarkaðarins um nýtt almannatryggingakerfi?