142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hagsmunasamtök hafa ákveðið hlutverk og það er að standa vörð um hagsmuni félaga sinna. Stærstu hóparnir sem þiggja greiðslur frá Tryggingastofnun, öryrkjar og eldri borgarar, eru með afburðahagsmunasamtök sem standa sig virkilega vel í sinni gæslu. Ég lít svo á að báðar athugasemdirnar sem hafa komið fram séu hvatning til að halda áfram við að afnema þessar skerðingar, að bæta kjör þessara hópa. Þetta er fyrsta skrefið og það hefur komið mjög skýrt fram.

Við ætlum okkur að halda áfram. Það kom fram í ræðu minni, og kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu sjálfu, að við séum að fara yfir aðrar skerðingar, sem var farið í 2009, og skerðingarhlutfallið varðandi tekjutrygginguna er sérstaklega nefnt í kostnaðarmatinu.

Síðan er líka þetta stóra verkefni um það hvernig við breytum almannatryggingakerfinu í heild sinni og kannski má segja að aðrir þættir snúist almennt um alla þegna þessa samfélags, sem eru skattgreiðendur, því að þessi hópur er það svo sannarlega. Þegar kemur að kjarasamningum og viðræðum við aðila vinnumarkaðarins er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa hagsmuni þessa hóps líka í huga, þegar niðurstaðan liggur fyrir í því.