142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:54]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil eiginlega byrja á því að lýsa undrun minni á því að ég sitji hér í nánast tómum þingsal þegar verið er að ræða um frumvarp til laga sem snertir lífsviðurværi stórs hóps á Íslandi. Það er kannski bara dálítill barnaskapur af mér að vera undrandi af því að það lýsir því kannski mjög vel hver staða okkar sem tilheyrum þeim hópi sem hér er verið að ræða um er. Mér þykir mjög leitt að sjá hve fáir gefa sér tíma í það eða sýna því áhuga að taka þátt í þessari umræðu en ég verð bara að lifa í þeirri von að þeir sitji allir límdir við skjáinn þarna frammi og komi svo hlaupandi hingað inn á eftir til að taka þátt í málefnalegum umræðum. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það sé kannski heldur ekki alveg rétt hjá mér.

Björt framtíð styður minnihlutaálit velferðarnefndar og gleðst yfir því að ríkisstjórnin vilji verja auknum fjármunum til almannatrygginga eins og gert var ráð fyrir í áætlunum fyrri ríkisstjórnar. Við viljum því styðja frumvarpið með breytingartillögum en eins og kemur fram í minnihlutaálitinu hörmum við það hve þröngur hópur nýtur góðs af þessu frumvarpi og þessum lagabreytingum.

Við gerum jafnframt alvarlegar athugasemdir við það að frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, gagnist nær eingöngu þeim lífeyrisþegum sem hafa hæstu tekjurnar og sem hafa greitt hvað lengst í lífeyrissjóði. Þrátt fyrir að frumvarpið kveði á um að staða kynjanna sé jöfn hvað varðar umbætur er líka ljóst að konur á ellilífeyrisaldri eiga minni uppsöfnuð réttindi í lífeyrissjóðum en karlar þar sem sagan sýnir að þær hafa meðal annars unnið ólaunuð heimilisstörf en þar að auki vegna langvarandi kynbundins launamunar eins og kemur fram í umsögn Jafnréttisstofu og hefur komið fram í umræðu um þetta mál.

Björt framtíð vill að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að binda enda á kynbundinn launamun en með þessu frumvarpi teljum við þvert á móti verið að viðhalda honum sem hlýtur að teljast ólíðandi. Taka þarf þetta til sérstakrar athugunar, líkt og Jafnréttisstofa bendir á, í frekari vinnu á þessu sviði. Mikilvægt er í því tilliti að til dæmis hækka grunnlífeyri sem ekki hefur fylgt verðlagi þar sem það mundi stuðla að jafnari breytingum fyrir bæði kynin og ólíka hópa, t.d. öryrkja og eldri borgara.

Ljóst er að öryrkjar munu finna lítið fyrir breytingum til hins betra með þessu frumvarpi. Vekur sú staðreynd undrun okkar í ljósi háværra radda öryrkja um áhrif slæms efnahags á líf þeirra. Jafnframt benda rannsóknir til þess að öryrkjar búi við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi en árið 2011 var unnin rannsókn af Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands um fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun 2010.

Í skýrslunni um rannsóknina kemur fram að markmið hennar var að afla þekkingar á efnahagslegum aðstæðum öryrkja frá þeirra eigin sjónarhorni. Í rannsókninni var einblínt á fjölskyldufólk með börn en þó var rætt við fjölbreyttan hóp öryrkja. Í rannsóknarniðurstöðum kemur fram að þátttakendur áttu það sameiginlegt að þurfa alfarið að treysta á örorkubætur til lífsviðurværis. Bæturnar eru það lágar að þátttakendur búa við mjög erfiðan fjárhag og eiga í miklu basli við að tryggja lífsviðurværi sitt frá degi til dags og sumir hafa ekki efni á að versla mat eða aðrar nauðsynjar síðasta hluta mánaðarins.

Í rannsókninni kom fram að samkvæmt margvíslegum viðurkenndum viðmiðunum, sem notuð eru til að mæla og meta fátækt, býr stór hluti öryrkja við fátækt eða fátæktarmörk. Þátttakendurnir í rannsókninni litu kannski ekki allir á það þannig enda, eins og ég þekki sjálf af því að búa við skerðingu, verður maður oft samdauna þeim aðstæðum sem maður er í. Þátttakendurnir tóku fram að fjárhagsstaða þeirra væri mjög viðkvæm og lítið þyrfti til þess að ýta þeim yfir fátæktarmörk. Sá hópur sem var verst staddur samkvæmt þessari rannsókn voru barnafjölskyldur. Kom fram að sá hópur býr við mikla streitu og hefur stöðugt áhyggjur af afkomu fjölskyldunnar en sú staða öryrkja hefur neikvæð áhrif á fjölskyldulífið og börnin að þeirra eigin sögn.

Við höfum í þessu ljósi áhyggjur af endanlegri útgáfu af frumvarpi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ekki síst vegna þess að ekkert samráð var haft við aldrað fólk eða öryrkja í ferlinu né hagsmunasamtök þeirra og frumvarpið ber þess svo sannarlega merki.

Við teljum algjört grundvallaratriði að haft sé samráð við hópa sem verið er að taka ákvarðanir um eða fyrir. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað og þar með skuldbundið sig til að ganga ekki gegn, kveður skýrt á um viðunandi lífskjör og félagslega vernd í 28. gr. sinni og aðkomu fatlaðs fólks að ákvarðanatöku á öllum stigum stjórnsýslunnar.

Í greininni um viðunandi lífskjör og félagslega vernd segir í 1. lið, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Í 2. lið er kveðið á um þær ráðstafanir sem aðildarríki þurfa að gera til að ná fram þessum rétti. Þar kemur meðal annars fram að tryggja þurfi fötluðu fólki, einkum konum, stúlkum og öldruðu fólki, rétt til þátttöku í áætlunum til að draga úr fátækt og á sviði félagslegrar verndar almennt. Þar að auki að tryggja þurfi fötluðu fólki og fjölskyldum þess sem lifa í fátækt aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna sérstakra aðstæðna. Jafnframt að tryggja eigi fötluðu fólki jafnan aðgang að eftirlaunum og eftirlaunasjóðum.

Í 4. gr. samningsins, sem fjallar um samráð, segir meðal annars orðrétt, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks.“

Eins og komið hefur fram lagði velferðarráðherra á síðasta þingi fram tvö frumvörp sem voru afrakstur mikillar þverpólitískrar vinnu en þar var einmitt haft samráð við helstu hagsmunaaðila. Kom þá fram, í umsögnum margra við frumvarpið, sem er nú hér til umræðu, undrun yfir því að þeirra vinnu hefði verið ýtt til hliðar en í henni hefði falist heildarendurskoðun sem krafa hefði verið um til að einfalda flókið almannatryggingakerfi.

Við leggjum mikla áherslu á að mótuð sé langtímastefna um mál og forðast sé að stunda plástursaðgerðir sem duga eingöngu til skamms tíma eins og í þessu tilviki eða eins og í þessu tilviki til afmarkaðs hóps. Við teljum að gæta þurfi skynsemi og gerum okkur grein fyrir að framfarirnar nást í skrefum en grundvallaratriði er að skrefin til umbóta í almannatryggingakerfinu séu að einfalda kerfið, auka skilvirkni þess, stuðla að því að það hvetji fólk til virkni og hafi forvarnagildi, bæði fyrir aldrað fólk og öryrkja.

Eins og kemur fram í minnihlutaáliti er ljóst að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar getur sett þá vinnu sem hefur falist í heildarendurskoðuninni í ákveðið uppnám þar sem sá kostnaður sem fylgir frumvarpinu var ekki hluti af kostnaðaráætlun heildarendurskoðunarinnar.

Í frumvarpi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er kveðið á um í 2. gr. að auka þurfi eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Færa má sterk rök fyrir því að svo sé, til þess að auka gagnsæi stofnunarinnar og koma í veg fyrir að umbjóðendur hennar fái rangar greiðslur. Jafnframt til þess að draga úr bótasvikum. Okkur finnst mikilvægt að benda á að þetta þarf að skoða í heildarsamhengi. Í velferðarnefnd hefur komið fram umræða, bæði í umsögnum og í okkar hópi, að gengið sé lengra á Norðurlöndum í eftirlitshlutverki og rannsóknarskyldu og refsiákvæðum. Þarna tel ég okkur enn og aftur vera að bera okkur saman við Norðurlöndin í einu máli en ekki í heildarsamhenginu. Fatlað fólk á Íslandi til dæmis, þar með öryrkjar, býr við mjög slaka réttarvernd. Það getur beint málum sínum, ef það er ósátt við gang mála innan Tryggingastofnunar, fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga en það tekur langan tíma og getur verið flókið ferli en svona mál þola almennt ekki mikla bið.

Við höfum réttindagæslumenn á vegum velferðarráðuneytis sem er kveðið á um í réttindagæslulögum fatlaðs fólks en það er enn þá í raun nýtt úrræði sem þarf að slípast og gagnrýnisraddir hafa verið uppi um það að þar sem það sé á vegum velferðarráðuneytisins sé það ekki mjög óháð réttindagæsla. Í mínu umhverfi kemur oft skýrt fram í máli fatlaðs fólks að því finnst óþægilegt að leita þangað þar sem velferðarráðuneytið ber í raun bæði ábyrgð á því að setja stefnu í málinu og að gæta réttinda fólksins. Það er kannski dálítið ankannalegt, ef við hugsum um það, að vera manns eigin lögregla.

Réttindavernd er líka kostnaðarsöm fyrir öryrkja og aldrað fólk og maður þarf að hafa mjög lágar tekjur til að geta til dæmis fengið gjafsókn til að fara með mál fyrir dómstóla. Að mörgu leyti er því ekki heldur verið að uppfylla skilyrði mannréttindasamninga um að þessir hópar geti leitað réttar síns. Allt þetta verður að skoða í heildarsamhengi þegar verið er að tala um að auka eftirlitshlutverk, rannsóknarskyldu og refsiheimild til Tryggingastofnunar.

Þess vegna hafa ákveðnar efasemdir verið uppi, bæði innan velferðarnefndar en ekki síst meðal umsagnaraðila, þar sem um vandmeðfarnar heimildir er að ræða. Mikilvægt er að vanda vel til verka í þessum efnum svo að auknar eftirlitsheimildir þjóni tilgangi sínum og gangi ekki á rétt aldraðs fólks og öryrkja til persónuverndar og friðhelgi einkalífs.

Í áðurnefndri rannsókn, um fátækt og félagslega stöðu öryrkja frá 2011, kom fram í máli öryrkja að margir ættu erfitt með að átta sig á hvernig kerfið virkar þar sem útreikningar bóta eru oft mjög flóknir og erfitt að átta sig á þeim. Þetta hefur þær afleiðingar að margir þátttakendur hafa verið rukkaðir um endurgreiðslur ef þeir höfðu haft meiri tekjur en áætlað var sem settu fjárhag flestra í mikið uppnám, einfaldlega vegna þess að þeir áttuðu sig ekki á því hvernig þeir áttu að bera sig að. Kvörtuðu jafnframt margir í rannsókninni yfir því að fá bréf sem erfitt er að skilja vegna skrifræðilegs orðalags. Sumir þátttakendur ræddu almennt um mikla bið í kerfinu öllu eftir þjónustu, dónalega framkomu starfsmanna, skort á upplýsingum og rangar upplýsingar. Þátttakendur töldu einnig að stöðugar endurskipulagningar og nafnabreytingar á stofnunum gerðu kerfið enn þá flóknara. Þeir upplifðu sig sem vanmáttuga og hjálparlausa gagnvart því, bæði vegna hindrana, árekstra í samskiptum og skorti á samræðu og möguleikum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það kom fram í máli sumra þátttakenda að þeir upplifðu gagnsæisskort hjá þjónustustofnuninni sem ýtti undir að þá grunaði að ákvarðanir um bætur eða þjónustu væru teknar af handahófi og geðþótta. Þátttakendurnir töldu einnig að sú vanlíðan sem fylgdi því að eiga í samskiptum við kerfið hefði átt þátt í veikindum þeirra, ekki síst geðrænum erfiðleikum. Mörgum fannst niðurlægjandi að búa við þessar aðstæður, að flókið væri að koma sér út úr þeim og þeir upplifðu ákveðna höfnun af hálfu samfélagsins.

Þessar lýsingar undirstrika mikilvægi þess að eftirlit sé á báða bóga og markmiðið með því sé að auka gæði þjónustunnar, öryggi starfsemi stofnana og efla skilvirkni svo hægt sé að koma í veg fyrir að almannatryggingakerfið sé misnotað og að það brjóti á umbjóðendum sínum. Reynslan hefur sýnt að það getur verið flókið fyrir aldrað fólk og öryrkja að fóta sig í kerfinu en jafnframt að leita réttar síns eins og ég kom inn á áðan. Í skýrslu um rannsóknina eru dregnar fram tillögur og ábendingar til úrbóta sem mér finnst vert að benda á hér en þar kemur fram að endurskoða þurfi bótakerfið og einfalda það í heild sinni. Ekki bara parta og parta úr því og eins og ég kom inn á áðan, ekki að vera í plástursaðgerðum. Það þarf að minnka tekjutengingar og gera fólki þannig mögulegt að eiga auðveldara með að losa sig úr fátæktargildrum. Jafnframt er talið mikilvægt að grunnlífeyrir hækki.

Tillögurnar beina sjónum fyrst og fremst að kerfislægum umbótum en bæta þarf samskiptin milli kerfisins og þeirra sem nota það. Þörf er á því að hægt sé að skjóta málum til óháðs aðila og að notendur hafi aðgang að talsmanni. Huga þarf sérstaklega að barnafjölskyldum og endurskoða reglur með þeim hætti að ekki sé alltaf gengið út frá því að öryrkjar séu einhleypir einstaklingar. Tryggja þarf betra aðgengi að upplýsingum sem eru aðgengilegar og á auðskildu máli. Mikilvægt er að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins fari fram í verki á grunni fyrirliggjandi vinnu og þeim upplýsingum sem fyrir hendi eru svo að hægt sé að móta kerfið þannig að það sé til þjónustu fyrir fólkið en ekki að fólkið sem notar það sé í þjónustu við kerfið. Skoða þarf meðal annars auknar eftirlitsheimildir í því ljósi og með skýr markmið að leiðarljósi.

Þrátt fyrir ýmsa annmarka sem við sjáum í fyrirliggjandi frumvarpi munum við þó styðja það þar sem við teljum mikilvægt að koma ekki í veg fyrir að kjarabætur verði fyrir þann hóp sem þó er um að ræða. Við styðjum jafnframt og hvetjum til þess að breytingartillögur sem gerðar eru til þess að þeim hópi sem hefur lægstu tekjur sé betur mætt. Breytingarnar eru í anda heildarendurskoðunarinnar frá síðasta kjörtímabili. Við bindum vonir okkar við að þetta frumvarp sé eingöngu fyrsta skrefið af mörgum í þá átt að tryggja bæði öldruðu fólki og öryrkjum, og þá bæði konum og körlum, þau mannréttindi að búa við félagslegt öryggi og án fátæktar á Íslandi.