142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[21:11]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa þetta mjög stutt. Ég finn mig knúna til þess að bregðast við tveimur atriðum sem komu fram í fyrri umræðum. Í fyrsta lagi ummælum hv. þm. Péturs Blöndals um samráð, í tengslum við að Öryrkjabandalagið hafi kosið að draga sig frá samráði í vinnu að heildarendurskoðun á almannatryggingafrumvarpinu fyrir kosningar. Mér finnst mikilvægt að árétta að það er ekki afsökun fyrir því að samráð geti ekki gengið að einhver hagsmunasamtök hafi talið best að draga sig frá samningaviðræðum eða mótunarvinnu. Það geta legið margar ástæður að baki því. Ég þekki málið ekki, þar af leiðandi get ég ekki metið það, en ég þekki hins vegar að standa frammi fyrir því að þurfa að verja hagsmuni stórs hóps. Það getur verið mjög flókið. Ég vil hins vegar segja að það er gríðarlega mikilvægt í öllu starfi sem fram undan er og varðar almannatryggingar að haft sé samráð við öryrkja og aldrað fólk og þá sem málið varðar.

Jafnframt sló það mig í umræðunni allri í dag að mikil áhersla var lögð á það í sumum ræðum að tala um að bæta lífeyriskerfið og bæta almannatryggingakerfið sem eitthvað sem fólst í því að vera góður við vesalings fólkið sem ætti bágt. Ég er orðin mjög þreytt á því að við þurfum að tala svona. Mér finnst mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta snýst ekki um að það sé hópur af fólki sem sé svo óheppið að vera eins og það er og við þurfum að vera góð við það. Þetta snýst um að við berum ábyrgð á því að skapa samfélag sem gerir ráð fyrir öllum, sem skapar aðstæður þar sem allir geta tekið þátt, geta búið við eðlileg lífskjör og liðið vel.

Mig langar að lokum að vitna í orð manns sem flutti fyrirlestur á ráðstefnu á Írlandi sem ég sat á fyrir tveimur vikum síðan. Ég ætla ekki að vitna beint í orð hans en hann sagði að maður þyrfti að átta sig á því að helstu hindranir í lífi fatlaðs fólks eða öryrkja og að öllum líkindum aldraðra líka, væru þær sem samfélagið skapaði, ekki endilega í formi umhverfis eins og aðgengis eða einhvers slíks heldur vegna ákvarðana sem eru teknar um að hafa hlutina eins og þeir eru. Við þurfum að átta okkur á því að ef okkur langar til að fólki sem tilheyrir hópum sem við köllum minnihlutahópa líði vel og það geti búið við þau mannréttindi sem fólk gerir almennt í samfélaginu, berum við ábyrgð á því að taka þannig ákvarðanir hér inni sem gera það að verkum að það sé hægt.

Því miður þjónar þetta frumvarp eins og það er núna eingöngu ákveðnum hópi. Þá erum við að taka ákvörðun um að sinna ekki mjög stórum hópi af t.d. öryrkjum. Þar með er það það sem er mest fatlandi í þessari stöðu, ekki manneskjurnar sjálfar eða líkami þeirra, greindarvísitala eða andlegt ástand, heldur þær ákvarðanir sem hér eru teknar um að bæta eingöngu kjör ákveðinna hópa og mjög lítils hóps af öldruðu fólki og öryrkjum.