142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

aukið skatteftirlit.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Á þinginu í sumar tók ég fram að í fjármálaráðuneytinu yrði ekki gerð sama hagræðingarkrafa gagnvart eftirlitsaðilum líkt og skatteftirlitinu eins og víða væri annars staðar í stofnunum sem heyra undir ráðuneytið. Með því er ég fyrir mitt leyti meðal annars að taka undir mikilvægi þess að skatteftirlit í landinu sé skilvirkt.

Ég get hins vegar ekki tekið undir þau orð hv. þingmanns að hver króna sem við verjum til viðbótar í skatteftirlit muni alltaf skila sér, ef ég skildi hann rétt, margfalt til baka. Einhvern tíma hljótum við að vera komin á ytri mörkin í þeim efnum. Ég held líka að við eigum að nálgast þessa umræðu kannski ekki út frá því hvort við eigum endalaust að auka við skatteftirlit heldur að horfa á þetta aðeins í breiðara samhengi og spyrja okkur hvernig við getum tryggt skilvirka skattframkvæmd, hvernig við getum hagað skattareglum þannig að það lágmarki líkurnar á undanskotum. Við erum síðan öll sammála um að huga þarf að samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í landinu og einstaklinga reyndar líka, tryggja það þannig að í framkvæmd komist menn ekki auðveldlega með að skjóta sér undan skattskyldum. Ég vil segja fyrir mitt leyti að það sem ég hef séð til skatteftirlits í landinu undanfarin ár virðist hafa verið að skila góðum árangri eins og hv. þingmaður kom inn á. Það þýðir hins vegar ekki að við eigum alltaf að halda endalaust áfram í að bæta fjármunum þangað.

Við eigum einnig að horfa til fleiri kerfisbreytinga sem við getum gripið til. Skatteftirlit birtist ekki bara í því sem gerist hjá ríkisskattstjóra, það birtist líka víða annars staðar; í því hvernig við förum með rannsókn mála, hversu langan tíma slík mál taka, hversu skýr eru fordæmin sem fyrir liggja í dómskerfinu, hversu fljótt er svarað beiðnum (Forseti hringir.) um bindandi álit o.s.frv. (Forseti hringir.) Skattkerfið í heild sinni verður að svara slíkum spurningum.