142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að taka upp umræðu um þetta mál hér á Alþingi. Það er mikilvægt að hafa í huga það sem hv. þingmaður nefndi að þetta er mál sem snertir alla þjóðina með einhverjum hætti enda um að ræða eina stærstu samgöngumiðstöð landsins. Það sem skiptir hins vegar mestu í mínum huga hvað varðar þetta mál, og er lykilhlutverk mitt sem samgönguráðherra, er að reyna að ná sátt um framtíðarskipulag innanlandsflugvallar í Reykjavík. Það kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og ég hef sjálf ítrekað sagt það sem mína skoðun, að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera í Reykjavík. Það hvort flugvöllurinn verður um alla framtíð í Vatnsmýrinni eða annars staðar í höfuðborginni eða á höfuðborgarsvæðinu er mál sem við verðum að leysa í góðri sátt við ríkið, Reykjavíkurborg og ekki síður við landsbyggðina.

Þess vegna tek ég nú ekki alveg undir það sem nefnt var hér af hv. þingmanni um alla erfiðleikana sem Reykjavíkurborg hefur skapað í málinu. Ég hef verið hinum megin líka og tel að tveir hafi verið að tala saman um þetta og get ekki alveg tekið undir að Reykjavíkurborg hafi alla tíð og alltaf hagað sér með óábyrgum hætti í þessu máli. Ég ítreka þá skoðun mína, líka sem ráðherra sveitarstjórna, að skipulagsvaldið er hjá Reykjavíkurborg í þessu máli. Skipulagsvaldið er heilagt vald sveitarfélaganna og við verðum sem ríkisvald að virða það þrátt fyrir að við séum ekki endilega sammála áherslum Reykjavíkurborgar í þessu máli.

Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá neinum, eins og nefnt var, að nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í óbreyttri mynd. Ég fagna því sérstaklega að almenningur láti til sín taka með þessum hætti og finnst jákvætt að almenningur láti í sér heyra þegar um er að ræða mál sem varða hag allra landsmanna. Ég get líka, líkt og spurt var um hér af hv. þingmanni, upplýst þingheim um það, og þar með svarað spurningunni, að allt frá því að aðalskipulag Reykjavíkur var auglýst í byrjun sumars hef ég átt í viðræðum við forsvarsmenn borgarinnar, aðallega formann borgarráðs, um mikilvægi þess að völlurinn fái að starfa með fleiri en einni braut lengur en gert er ráð fyrir í auglýstu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem er til ársins 2016.

Eins og við þekkjum í þessari aðalskipulagstillögu sem Reykjavíkurborg hefur auglýst stendur til að taka norður/suðurbrautina af árið 2016. Það má öllum vera ljóst að flugvöllurinn verður þannig illa notaður og því hef ég verið, og mun áfram beita mér fyrir því sem samgönguráðherra, að ræða við Reykjavíkurborg, og við höfum átt mjög góðar viðræður um að vinna að því að við getum tryggt það að leysa þessa stöðu.

Ég get að öðru leyti ekki upplýst nákvæmlega um þær viðræður. Miðað hefur verið við að þær standi þar til að fresti til að skila inn athugasemdum lýkur, sem er 20. september. Viðræðurnar ganga vel og markmið ríkisvaldsins í þeim er alveg skýrt. Það er að tryggja að völlurinn fái að vera fullvirkur í lengri tíma en nú er gert ráð fyrir, þ.e. að tvær brautir verði opnar lengur en til ársins 2016. Mér hefur þótt Reykjavíkurborg sýna ríkisvaldinu skilning í þessum viðræðum og talandi um auglýsingar er varða til dæmis uppbygginguna í kringum Isavia þá hefur það þegar verið auglýst — var auglýst í júní — þannig að Reykjavíkurborg hefur líka verið að koma til móts við ríkið í því. Ég get fullvissað hv. þingmann og þingheim um að ég mun gæta almannahagsmuna í því og þeim skyldum sem ég ber sem samgönguráðherra, sem er að tryggja að völlurinn geti virkað. Vísað var til samkomulagsins sem undirritað var síðasta vor. Fyrirvararnir sem þar eru standa og það er einmitt ein af undirstöðum þess að við séum að ræða málið, þ.e. að til þess að það samkomulag geti að fullu tekið gildi þurfum við að ná samkomulagi um þessa hluti líka.

Ég þekki mjög vel þær aðvaranir sem hafa verið í gangi og varða öryggissjónarmið og lúta að sjúkraflugi og öðru sem tengist flugvellinum, sem er mjög mikilvægt. Þær athugasemdir sem koma fram til dæmis í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru til sérstakrar skoðunar í innanríkisráðuneytinu. En við verðum líka, finnst mér, í þessari umræðu — og ég sakna þess stundum sem fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík að menn ræði ekki líka öryggisþáttinn er lýtur að staðsetningu vallarins í miðborg Reykjavíkur. Það er líka öryggissjónarmið sem lýtur að því hvar völlurinn er staðsettur í Reykjavík og það lýtur að öryggissjónarmiðum er varða þá sem búa í borginni. Að þeim öryggisþáttum þarf líka að huga. Með því er ég ekki að gera lítið úr hinum öryggisþáttunum en finnst mikilvægt að við tökum þetta allt til skoðunar.

Ég ítreka að viðræðurnar við Reykjavíkurborg hafa staðið í þennan tíma, í allt sumar. Þær ganga vel og markmið ríkisvaldsins eru alveg skýr þar og eru í takt við það sem áður hefur verið sagt. En skipulagsvaldið er hjá Reykjavíkurborg og með þeim viljum við þess vegna vinna í málinu. Ég er sannfærð um að hægt er að ná sátt, að hægt er að ná góðri niðurstöðu og tryggja að völlurinn gegni því hlutverki sem hann gegnir í dag. Það verðum við að gera í sem bestri sátt við Reykjavík og það er markmiðið.