142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:14]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er sérstakur áhugamaður um flugvelli og sérstakur áhugamaður um borgir. Ef það er eitthvað sem ég hef lært þá er það að þessi tvö fyrirbæri eru með því flóknasta í mannheimi og mörg sjónarmið sem þarf að skoða þegar maður hugsar um borgir og flugvelli. Þess vegna finnst mér leiðinlegt að umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur tilhneigingu til að snúast um hina einu sönnu lausn. Það er gjarnan talað um að finna þurfi sátt en allir virðast sammála um að sú sátt geti bara falist í því að allir sættist á þeirra eigin tillögu. Mín reynsla er að samtal sem fjallar bara um það sem mér finnst er ekki alvörusamtal og ekki líkur á að það leiði til sáttar þó svo að það geti leitt til lausnar.

Reykjavíkurborg hefur skipulagsvaldið eins og hæstv. innanríkisráðherra benti á í góðri ræðu sinni. Það er ekki bara réttur borgarinnar heldur skylda að setja fram aðalskipulag þar sem eru framtíðarlausnir, framtíðarhugsun í skipulagi borgarsvæðisins. Við höfum margoft heyrt það í umræðunni að staðsetning Reykjavíkurflugvallar hafi ýtt á dreifða byggð sem hefur margt neikvætt í för með sér fyrir borgina. Við skulum ekki gleyma því að það búa 20 þús. manns fyrir vestan flugvöllinn og það eru líka Íslendingar. Það er ekki fólk af annarri tegund en fólk sem býr úti á landi. Þetta er sameiginlegt hagsmunamál Reykvíkinga og þeirra sem búa úti á landi, hvort sem þeir eru að fljúga burt eða til borgarinnar.

Ég vildi bara þakka innanríkisráðherra kærlega fyrir góða ræðu og þær góðu fregnir sem hún bar okkur um uppbyggilegt samtal (Gripið fram í.) við borgina og ég vænti góðs af því.