142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem þó hefur verið, eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, ögn einhliða. Hér hafa þeir talað fyrst og fremst sem hafa haft efasemdir um þetta frumvarp sem hér er rætt en minna hefur farið fyrir innblásnum sannfæringarræðum þeirra sem standa með málinu. Það er áhyggjuefni vegna þess að við erum ekki á hefðbundnum lendum í umræðunni heldur erum við á gráu svæði gagnvart stjórnarskrá Íslands. Það er því eins og hér hefur margoft komið fram ekki neitt sem við afgreiðum með léttúð eða bara af því að við höfum ekki tíma eða bara af því að við nennum því ekki eða bara af því að okkur finnst svo mikilvægt að ríkisstjórnin fái að klára sín mál. Það er ekki boðlegt þegar svona stór grundvallaratriði eru undir að afstaðan sé tekin á grundvelli slíkra sjónarmiða.

Það er, virðulegur forseti, ekkert minna en hlægilegt þegar hér hafa verið haldnar ræður undir ýmsum liðum í dag, núna síðast um húsnæðismál, og það jaðraði við að hæstv. ráðherra væri klökkur í ræðustól að kalla eftir samráði, samstöðu, samtali, samvinnu og ég veit ekki hverju. Þetta átti allt að verða svo stórkostlegt af því að við ætluðum að tala svo mikið saman. Við ætluðum að komast að niðurstöðu af því að við ætluðum að tala svo mikið saman.

Svo þegar kemur að raunverulegum vilja til þess að leiða mál til lykta í sátt er enginn áhugi á slíkum vinnubrögðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er froða og þetta eru orðin tóm. Það er nefnilega við svona tækifæri eins og akkúrat núna sem reynir á hvort innstæða er fyrir því að kalla sig samvinnumenn, að kalla sig samvinnustjórnmálafólk eða hvað það er sem passar eða hentar í ræðum hv. þingmanna og ráðherra hverju sinni.

Það sem blasir við núna, virðulegi forseti, er að 2. umr. lýkur og málið verður kallað til nefndar samkvæmt ósk okkar í minni hlutanum. Þá kemur í ljós hvort þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð hafi náð eyrum hv. þingmanna sem skipa meiri hluta stjórnarflokkanna. Eða er það svo að menn ætli að halda sýndarfundi til þess eins að drífa málið síðan í atkvæðagreiðslu í næstu viku og klára það sem lög frá Alþingi? Eða hafa menn til þess þrótt og kjark og jafnvel sjálfstæða sýn til að segja sem svo: Þegar við erum með viðfangsefni þar sem persónuverndarsjónarmiðum, mannréttindaákvæðum er ógnað þurfum við að staldra við.

Og hverju er verið að safna? Við erum að veita heimildir til að safna gríðarlegu magni upplýsinga fyrir óskilgreint verkefni. Upplýsingarnar þarf ekki fyrir tillögurnar í nóvember en hugsanlega fyrir einhverjar aðrar tillögur einhvern tíma seinna. Á fundum nefndarinnar kom fram og hefur komið fram í máli þeirra fáu sem hafa talað fyrir hönd stjórnarmeirihlutans að það er bara gott að vera með svona mikið af gögnum, það er frábært að vera með svona mikið af gögnum af því að okkur gæti dottið eitthvað í hug. Við gætum kallað það, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson nefndi: Erum við ekki alltaf að gera eitthvað fyrir heimilin? Erum við ekki alltaf að gera eitthvað fyrir heimilin hérna í þinginu?

Jú, við erum alltaf að gera eitthvað fyrir heimilin. Við getum skilgreint nákvæmlega hvað sem er sem almannahagsmuni, ríka almannahagsmuni, með þau gleraugu á nefinu. Er þá stjórnarskráin hvað þetta varðar einskis virði? Eru það skilaboðin? Persónuvernd hefur ítrekað, ekki bara í september heldur líka í júní, sagt nei, frumvarpið brýtur gegn stjórnarskrá. Og hvað gerum við? Hvað eigum við þá að gera, virðulegur forseti? Hvað gera þá hinir vösku ungu þingmenn stjórnarflokkanna? Yppta öxlum. Þeir yppta öxlum gagnvart broti á stjórnarskrá. Það er það sem þeir gera. Mannréttindaákvæði, hvað er það? Persónuvernd, hvað er það?

Við erum nefnilega hér komin saman til þess að ná pólitískum markmiðum sem er hægt að skilgreina hvernig sem er, á hvaða tíma sem er. Það er eiginlega niðurstaðan eftir daginn í dag. Það hefur enginn fókus eða brennipunktur orðið skýrari í dag með þessari umræðu. Spurningunum fjölgar, efinn vex.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ræddi áðan skilgreiningar flokkanna á hugtökum eins og forsendubresti og leiðréttingum. Hvað stendur til? Hvar eru eldræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins fyrir höfuðstólslækkun verðtryggðra lána? Hér koma þingmenn, hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Brynjar Níelsson og segja: Ja, það væri nú gott að skoða ýmislegt annað, af hverju er ekki verið að skoða leigumarkaðinn og af hverju er ekki verið að skoða þetta og hitt? Bíðum við, hv. þingmenn eru í ríkisstjórn sem hefur ákveðið að skoða ekki annað, sem hefur ákveðið tilteknar aðgerðir. Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki með í þessari ríkisstjórn? Út á hvað gengur þetta samkomulag eiginlega? Út á hvað gengur samningurinn sem er samstarfssamningur ríkisstjórnarflokkanna? Heimsmetin, veraldarmetin eða hvað þetta er nú kallað, sem hvarflar að manni að hljóti að toppa allt sem hefur gerst merkilegt í vetrarbrautinni eins og hæstv. forsætisráðherra talar. (Gripið fram í: Vetrarbrautarmet.) Já, þetta er orðið brautarmet. Það er svo yfirgengilegt og gengur svo gjörsamlega út yfir allt sem maður hefur séð í íslenskum stjórnmálum að ég verð að segja að maður er hugsi yfir erfiðri stöðu sjálfstæðismanna. Sem betur fer gutlar á einum og einum þeirra sem koma hér upp og efast. Þeir gera það á hófsaman hátt, þeir segja: Er hægt að gera hvað sem er til að ná pólitískum markmiðum? Þeir draga fram þær efasemdir.

Hvað gera þeir svo? Þeir fara inn í allsherjar- og menntamálanefnd, klára málið, mæta í þingsal, greiða atkvæði með málinu með sínum manni, með sínu liði, algjörlega óháð efnislegu innihaldi máls, af því að svoleiðis vinnur maður þegar maður er í ríkisstjórn eða hvað, virðulegur forseti?

Það þarf nefnilega kjark til þess að vanda undirbúning og það þarf kjark til þess líka að vera þingmaður. Og það þarf kjark til þess að efast um þann matseðil sem manni er réttur úr Stjórnarráðinu sem kemur fyrir að er með réttum sem eru ekki efst á vinsældalistanum.

Ég vonast auðvitað til þess að félagar mínir í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sjái það sem kemur svo skýrt fram í nefndaráliti minni hluta að það er raunverulegur vilji til að ná saman um málið. Við munum gera tillögu, raunverulega tillögu sem þarf að taka afstöðu til, um að við tökum höndum saman um að nálgast þau markmið sem lagt er upp með.

Ég hef enn þá ekki fengið neina skýringu á því af hverju menn vilja ekki ná sátt um þetta mál. Af hverju vilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ekki ná sátt, samstöðu, eindrægni um málið þegar viljinn er fyrir hendi? Af hverju ekki? Því hefur ekki enn þá verið svarað. En ég vænti þess að málið fái að minnsta kosti umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. og í þinginu og að við náum að snúa bökum saman fyrir þingræðið og þetta mikilvæga mál. Ekki fyrir ríkisstjórnarflokkana eða fyrir okkur sjálf sem einstaklinga, heldur fyrir Ísland.