142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að sannfæra mig um að hann sé ekki hingað kominn til að tefja málið, það er gott, þá liggur það fyrir.

Varðandi skuldavandann þá er það þannig að þrátt fyrir að þær nefndir sem hafa verið skipaðar skili af sér niðurstöðu eigum við auðvitað eftir að fjalla um þau mál. Síðustu fjögur árin höfum við staðið hér í þinginu og reynt að átta okkur á stöðunni og kalla eftir upplýsingum. Og bara til þess að það komi fram — af því að hv. þingmaður minntist á það í ræðu sinni að fyrrverandi ríkisstjórn hefði ekki sýnt tilburði í að fara svona langt — þá ætlaði fyrrverandi ríkisstjórn að fara þessa leið. Hagstofan átti að safna saman upplýsingum, til þess voru veittir fjármunir án þess að ramminn kæmi hér inn á þing. Þessi niðurstaða hér byggir í raun á tilraun fyrrverandi ríkisstjórnar til að fara þess leið án þess að lögfesta hana.

Við höfum fjallað um það í nefndinni, og fengið um það upplýsingar frá gestum sem hafa fjallað um það, að verið var að undirbúa þessa löggjöf, löggjöf af þessu tagi, þá þegar ný ríkisstjórn tók við svo að það liggi fyrir. Búið var að veita í þetta fjármuni, það átti að fara í þetta án þess að lögfesta það í gegnum þingið, án þess að fara þessa leið sem ég tel vera rétta, að við ræðum þetta alla vega hér í þinginu. Við erum jú öll sammála um að við erum hér að tala um mikilvægar persónulegar upplýsingar.

Það er því ágætt að málið er þó komið hér inn og við náum að ræða það vel. Við áttum gott samstarf í nefndinni um þetta mál og það er vel. Það er rétt, sem komið hefur fram, að þetta mál mun ekki leiða í ljós að fullu stöðu leigjenda enda er það að mínu viti þáttur sem rétt er að skoða sérstaklega, hvernig hægt er að leiða þær upplýsingar fram. Það er erfiðara að halda utan um það, ekki eru allir leigusamningar þinglýstir o.s.frv. þannig að fara þarf í sérstaka vinnu til að kortleggja hvernig við getum nálgast það að fá yfirsýn yfir stöðu leigjenda.