142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kýs hér að svara hvorugri spurningu minni þannig að ég neyðist til að ítreka þær: Hvaða aðrar skemmri leiðir hefði verið hægt að fara ef hv. þingmaður er í raun á móti markmiðum þessa frumvarps, á móti afmörkuninni og telur að engir ríkir almannahagsmunir kalli á að safna þurfi að þessum gögnum?

Ef við færum einhverjar aðrar skemmri leiðir þá þyrfti alltaf að lögfesta heimildarákvæði fyrir Hagstofuna, kannski í einhverri annarri mynd gagnvart einhverjum þrengri hópi, ef það er það sem hv. þingmaður er að tala um, en hann kemst ekki fram hjá því að það þarf að lögfesta heimildarákvæði. Eða er það svo að hv. þingmaður er, ef ég skil hann rétt, ósammála markmiðunum, ósammála afmörkuninni og telur enga ríka almannahagsmuni leiða til þess að afla þurfi upplýsinga um hver staðan er?

Ég ítreka líka fyrri spurningu mína um hvað hv. þingmaður hafi verið að hugsa þegar hann stýrði þessari vinnu í efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma og fullyrt var að Hagstofan væri þá þegar að safna þessum gögnum.