142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera mjög góð umræða og að mínu mati mjög málefnaleg á margan hátt. Það varð hrun og síðan hefur mikið verið talað um forsendubrest og verulegan vanda skuldsettra heimila. Menn hafa farið í ýmsar aðgerðir við að leiðrétta það, eins og 110%-leiðina, og svo hefur Hæstiréttur gripið inn í dæmið og dæmt stóran eða nokkurn hluta af lánum ólöglegan sem hefur líka lagað stöðu heimilanna allverulega. Samt er það þannig að mér finnst ég í rauninni ekki vita neitt um þann skerjagarð sem við siglum um, ef ég má nota þá líkingu. Ég kvartaði undan því allt síðasta kjörtímabil að vita í rauninni ekkert. Það er alltaf verið að krefjast úrbóta, alltaf verið að segja að eitthvað eigi að gera og að það þurfi að laga stöðu heimilanna en til þess þarf ég að vita hver staðan er, eða hvað? Og hvaða heimili er átt við og hvað er yfirleitt heimili? Það er ekki einu sinni skilgreint.

Það frumvarp sem við ræðum í dag er engan veginn mitt óskafrumvarp. Ég er ekkert voðalega hrifinn af því að afla svo mikilla gagna, það er alls ekki þannig að ég sé hrifinn af því. Hins vegar horfi ég á það að hjá ríkisskattstjóra eru ekki síður mikil gögn og veigamikil um alla, alla Íslendinga, langt aftur í tímann og í rauninni er hægt að rekja stöðu hvers einstaklings ár fyrir ár. Þegar menn eru að tala um að þetta verði fyrir árásum ættu þeir að fara að huga að því að verja gögnin sem ríkisskattstjóri er með.

Það hafa verið ræddar nokkrar leiðir til að laga þetta. Menn hafa talað um nægilega stórt úrtak og um upplýst samþykki. Báðar leiðirnar hafa einn stóran agnúa og hann er sá að í úrtaki er alltaf einhver hluti sem ekki svarar. Af því að við erum að leita að ákveðnum hópi sem er oft kominn í mikil vandræði og að einhverju leyti dottinn út úr eðlilegu umhverfi, kann að vera að einmitt sá hópur sem menn ætla að ná til svari ekki. Það á líka við ef menn ætla að fá upplýst samþykki, það er nákvæmlega það sama. Menn þekkja hversu erfitt er að ná í fólk, að ná til manna. Jafnvel skatturinn sem er kominn með áralanga reynslu, það er alltaf einhver hópur manna sem aldrei telur fram, hann fer reyndar síminnkandi en er til samt sem áður. Ég hygg að báðar leiðirnar séu þannig að skekkja verður í úrtakinu sjálfu og þá verður ekki traust á niðurstöðunni. Niðurstaðan verður opin fyrir gagnrýni þegar menn fara að túlka niðurstöðurnar og segja að ekki séu nema 10% heimilanna í vanda sem er svipað og 2007 — ef það skyldi verða niðurstaðan — og þá munu einhverjir segja: Það er ekkert að marka þetta vegna þess að það vantar úrtak eða það er skekkt. Það verður ekki sama traust á niðurstöðunni og þegar Hagstofan tekur 100% úrtak og fær svarið við öllum spurningunum frá öllum. Auðvitað eru gallarnir margir, það er að sumu leyti mat á fasteignum, það er spurning um og hitt þetta sem er ekki rétt talið fram og allt slíkt en í megindráttum fæst miklu öruggari niðurstaða og miklu betri til að taka ákvarðanir heldur en við þær leiðir sem menn hafa verið að stinga upp á, bæði upplýst samþykki og úrtakið.

Ég hef kvartað undan því að þörfum leigjenda sé ekki mætt og ég hef verið að skoða niðurstöðuna eins og hún liggur fyrir núna, hvort hægt sé að gera einhverjar breytingar fyrir morgundaginn. Það er kannski ekkert voðalega mikill tími til þess en ég mundi gjarnan vilja að menn sinntu þeim stóra og vaxandi hóp sem leigjendur eru, 27% heimila og var fyrir nokkrum árum 18% heimila samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Leigjendur eru í miklum vanda, borga verðtryggða leigu, jafnvel með lækkandi launum og er í miklum vanda. Það er ósköp lítið talað um þennan hóp og lítil samúð með honum.

Svo er annað sem ég velti fyrir mér í öllu talinu um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins og allt það. Það eru að koma upplýsingar um að allt sé uppi á borðinu, þ.e. menn vita allt um mig og maður getur jafnvel ályktað að þeir viti hvað ég sagði í símann í gær og þá er ég að tala upplýsingar sem höfðu komið fram um NSA, bandarísku stofnunina. Á sama tíma erum við að tala um persónuvernd í mjög þröngu dæmi. Ég vildi gjarnan að hv. þingmenn færu að velta fyrir sér stóru málunum sem eru til umræðu um alla Evrópu og menn eru mjög hneykslaðir á. Kannski er þetta óumflýjanlegt, t.d. er síminn minn með þeim eiginleika að það er einhver sem veit nákvæmlega hvar ég er staddur núna, uppi á 2. hæð í Alþingishúsinu, í ræðustól meira að segja. Hvar er persónuverndin? Það sjá það svo sem allir að ég er hérna en þegar ég er einhvers staðar annars staðar vita menn það líka.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég vildi koma þessum sjónarmiðum að. Þetta er ekki gott mál en til að svara kallinu um að leysa skuldavanda heimilanna tel ég það nauðsynlegt mál.