142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég biðst afsökunar, ég bað um að komast í ræðu, ég tek það aftur, mér fannst ég vera búin með andsvörin.

Ég ætla bara að segja það að ég vona sannarlega að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafi ekki verið að reyna að koma því hér að að ég hefði eitthvað á móti því að laga skuldavanda heimilanna eða að ég væri á einhvern hátt að þvælast fyrir því. Það var ekki annað að heyra af upphafsorðum í seinna andsvari hv. þingmanns en að svo væri. Ef svo er vil ég bera af mér sakir.

Það er akkúrat þessi málflutningur, það er akkúrat þetta sem setur Alþingi niður, sem hefur gert það að verkum að fólk treystir okkur ekki hér í þessum sal. (UBK: … ég skil ekki um hvað þú ert að tala.) Þingmaðurinn sagði að þessi ríkisstjórn væri að reyna að leysa skuldavanda heimilanna. Vorum við ekki að því, höfum við ekki öll hér verið að því (Gripið fram í.) undanfarin fjögur ár?