143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér líst vel á þetta almennt. Ég skil reyndar ekki alveg hvers vegna þetta ættu að vera aðskildar stofnanir en þykir þetta almennt til bóta. En ég er með þrjár spurningar frekar en kannski gagnrýni. Mér sýnist Neytendastofa ekki taka við öllum réttindum eða störfum talsmanns neytenda. Þá sé ég ekki að Neytendastofa geti kallað eftir sömu gögnum og talsmanni neytenda er sérstaklega gert kleift að kalla eftir samkvæmt 8. gr. laga 63/2005. Það er ein af þeim greinum sem eru felldar út með frumvarpinu. Mig langar að vita hvort til komi að Neytendastofa hafi einhverjar slíkar heimildir.

Ég sé ekki heldur skýrt að Neytendastofa geti með þessum breytingum tekið við kvörtunum á sama hátt og talsmanni neytenda er ætlað að gera samkvæmt gömlu lögunum þótt vissulega sé í 4. gr. gömlu laganna svokölluð áfrýjunarnefnd neytendamála en hún virðist bara taka á stjórnvaldsákvörðunum en ekki taka við kvörtun frá neytendum. Þannig að ég velti fyrir mér hvort einhver prósess sé annaðhvort innbyggður í þetta eða ætlaður til að meðhöndla það.

Í þriðja lagi tek ég eftir því að talsmanni neytenda er ætlað sjálfstæði alveg sérstaklega samkvæmt 10. gr. gömlu laganna sem er felld út samkvæmt 3. gr. nýju tillögunnar á meðan í 2. gr. að nýju lögunum stendur sérstaklega að forstjóri beri ábyrgð á að starfsemi og rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Ég velti fyrir mér viðbrögðum hæstv. ráðherra við þessum spurningum.