143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef skilið frumvarp hæstv. ráðherra með þeim hætti að það væri síður en svo verið að leggja niður verkefni sem talsmaður neytenda hefur sinnt af nokkrum skörungsskap, heldur væri verið að færa það undir Neytendastofu.

Þá er rétt að greina frá því að í upphafi voru menn ekki á eitt sáttir um það ferðalag sem menn fóru í til þess að þróa neytendavernd á Íslandi. Ég var t.d. á meðal þeirra sem töldu verkaskiptinguna óljósa og að hægt væri og betra að hafa þetta með öðrum hætti. Ég hef jákvæða afstöðu gagnvart þessu frumvarpi, ég áskil mér auðvitað rétt til þess að skoða það betur eftir því sem vinnu nefndarinnar vindur fram. En það er nú nokkur trygging fyrir mig að málið sé ágætt þegar bæði fulltrúar borgaralegra anarkista hér, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, og hægri sinnaður stjórnmálamaður, eins og hæstv. innanríkisráðherra, eru nánast sammála. Ég tók eftir því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson taldi að þarna væri verið að þétta neytendavernd á Íslandi.

Ég er líka ánægður með að hæstv. innanríkisráðherra fetar áfram á þeirri braut sem fyrri ríkisstjórn markaði með að fækka ríkisstofnunum með því að sameina þær. Það var stefna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fylgdi mjög skýrt. Er rétt að rifja það upp að við fækkuðum stofnunum, lögðum saman mörg lítil embætti og ég man ekki eftir neinni nýrri stofnun sem við bjuggum til nema Fjölmiðlastofu sem mig minnir að hafi kostað undir 50 millj. kr. á ári, það var nú ekki meira.

Ég fagna því þegar hæstv. ráðherra segir að hún vilji leita leiða til að hagræða og beita aðhaldi með því að sameina stofnanir. Ég er líka sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni — þó að það sé svakalegt að vera sammála honum tvo daga í röð — um að það á eftir því sem hægt er að draga úr og gera eftirlitsiðnaðinn skilvirkari. En herra trúr, þegar menn eins og hv. þingmaður halda því fram að hér sé verið að reka eftirlitsiðnað sem sé meira og minna ónauðsynlegur og kosti íslenska skattgreiðendur 16–18 milljarða, ja, þá verða menn að rökstyðja það með einhverjum hætti.

Hv. þingmaður bætti reyndar um betur og var erfitt að henda nákvæmar reiður á máli hans, en eftir að hafa kastað því inn í þessa umræðu að hægt væri að spara 16–18 milljarða þá gaf hann svolítið í undir lok ræðu sinnar, sem er nú ekki háttur hv. þingmanns því að hann er venju fremur varkár í tali eins og við vitum, og sagði að hægt væri að meta allan eftirlitsiðnaðinn, eins og hann kallaði það, upp á 30–40 milljarða.

Nú get ég staðið hér eins og hvítskúraður engill því að ekki ber ég ábyrgð á því. Meira og minna allur þessi eftirlitsiðnaður kom upp undir forustu Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Það tekur ekki réttinn frá hv. þingmanni til þess að gagnrýna hann og það er frekar ávinningur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og alla flokka að hafa gagnrýna menn og konur í sínum röðum. En mig langar til þess að spyrja hv. þm. Óla Björn Kárason: Getur hann fært rök fyrir þessu?

Við höfum aðeins fyrr á þessum degi rætt hagræðingarnefndina, niðurskurðarnefndina svokölluðu, sem er undir forustu tveggja hv. þingmanna, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Vigdísar Hauksdóttur. Það er svo sem að renna upp fyrir öllum að sú nefnd hefur beitt upp, það kemur ekkert úr henni. Hún skammast sín meira að segja svo fyrir verk sín að hún þorir ekki að reiða fram gögnin eða fundargerðir sem hana varða. Ég held að það væri meira en einnar messu virði ef hv. þingmaður mundi kannski gefa okkur í stuttri ræðu einhverjar útlínur af þeim mögulegu breytingum sem hægt væri að grípa til í því sem hann kallar eftirlitsiðnað, sem mundu í senn skapa hagræði og spara þótt ekki væri nema brotabrot af þessum miklu upphæðum sem hv. þingmaður hefur nefnt, en um leið tryggt hag borgaranna og neytenda. Væntanlega var þessi eftirlitsiðnaður, sem hv. þingmaður kallar svo, settur á stofn af hans góða flokki á sínum tíma til þess að tryggja hag neytenda á Íslandi og líka til þess að tryggja hag útflutningsgreina, til þess að greiða útflutningi Íslendinga leið inn á markað erlendis með þeim vottorðum og stimplum og öllu því sinnepi og tómatmauki sem við þarf að éta.

Ég vildi því gjarnan fá að heyra frá hv. þingmanni hvort það sé eitthvað annað á bak við þetta og hvort þetta sé eitthvað meira en orðin tóm. Það er ekki mín reynsla af hv. þingmanni að hann tali eins og tóm tunna, yfirleitt er eitthvert andlag á bak við þegar bylur í hv. þingmanni. En gaman væri að heyra þetta og sennilega væri það happadrýgst fyrir hagræðingarnefndina góðu að fá hv. þingmann sem dráttarklár og hugmyndasmið fyrir sig því að ekki virðist hún ætla að skila miklu.