143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[17:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir auðvitað slæmt ef ég hef rangfært þær áherslur sem hv. þingmaður og flokksbróðir eða hreyfingarbróðir hv. þingmanns sem hér talaði áðan fór með, en svo æfður er ég nú á langri setu á þessu þingi að ég hef þokkalega gott skyn á það sem menn segja og það var alveg klárt. En hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er mættur til fundar og hann getur þá borið af sér sakir. En ég heyrði það alveg skýrt að hv. þingmaður var jákvæður gagnvart þessu frumvarpi alveg eins og ég er, án þess að ég vilji lýsa yfir skýrum stuðningi við það.

En ég held að við séum á réttri braut og hugsanlega það eina sem ég get orðið sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni með er að við eigum að róa fyrir allar víkur til að reyna að nýta fé skattborgaranna betur. Ég held að það sé hægt með þessari aðferð. Ég hefði talið að það væri kannski rétt í ferðinni, eða a.m.k. í upphafi þess ferðalags, að gera það sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan að dreifa valdinu með því að láta hluta af þeim sparnaði sem til verður í svigrúmi renna til Neytendasamtakanna til að styrkja hina frjálsu rödd neytenda á þessu sviði.

Að öðru leyti segi ég við hv. þingmann að ég held að hugsanlega beri ég ekki minna skyn á það hvað hans ágæti hreyfingarbróðir sagði áðan en hann sjálfur — og þetta sagði hann.