143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja ræðu mína um Ríkisútvarpið á því að óska Kastljósi Ríkisútvarpsins innilega til hamingju með þá viðurkenningu sem Barnaheill veittu Kastljósi á afmælisdegi barnasáttmálans fyrir baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, gríðarlega vandaða og ítarlega og góða umfjöllun sem vakti þjóðina til vitundar um hversu alvarlegt vandamál slíkt ofbeldi er.

Það minnir okkur líka á að Ríkisútvarpið hefur einmitt slíkt hlutverk. Það hefur það hlutverk að taka á ákveðnum málum, gagnrýna samfélagið, leita eftir bestu upplýsingum á hverjum tíma, leiða þjóðfélagsumræðuna þannig að almenningur geti fengið góðar upplýsingar. Þess vegna mátti aldrei fara í þann farveg að menn reyndu að hafa pólitísk áhrif á það hvernig útvarpinu yrði stjórnað. Við verðum að gæta þess að Ríkisútvarpið hafi tekjur til að sinna þessu hlutverki sínu.

Í fyrsta lagi vekur athygli það sem hér er verið að gera, að treysta aftur á auglýsingamarkaðinn eftir ítarlega löggjöf sem sett var. Það er óljóst hvort Ríkisútvarpið nær þessum tekjum vegna þess að mér er sagt að það nái ekki einu sinni að nýta þær mínútur sem það hefur heimildir fyrir nú þegar. Í öðru lagi vekur athygli líka að í fjárlagafrumvarpinu nýja er útvarpsgjaldið hækkað um 3% eins og önnur gjöld hjá ríkinu en hækkunin er ekki látin renna til Ríkisútvarpsins. Þar er sem sagt kominn nýr skattstofn hjá hæstv. ríkisstjórn.

Þetta er líka gert varðandi Háskóla Íslands þar sem innritunargjöld hækka um 15 þús. kr., það eru 189 milljónir í tekjur sem háskólinn hefði átt að fá en af þeim fara 39 millj. kr. til háskólans.

Þetta er ný skattheimtuaðgerð á sama tíma og menn státa af því að vera að lækka tekjuskatt. Það er til dæmis þannig að hjá þeim sem fá nú tekjuskattslækkunina og eru með (Forseti hringir.) einn háskólanema á framfæri sínu dugar sú tekjuskattslækkun ekki til að borga hækkunina í innritunargjöldunum, hvað þá útvarpsgjaldið.