143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

barnaverndarlög.

186. mál
[20:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ábendingar komu fram einmitt um það að þar sem Barnaverndarstofa hefur verið að veita barnaverndarnefndum ýmsa þjónustu færi það í rauninni ekki saman að Barnaverndarstofa mundi að sama skapi hafa eftirlit með þeirri þjónustu sem Barnaverndarstofa veitir, því að niðurstaðan var þannig að færa eftirlit með barnaverndarmálunum og Barnaverndarstofu yfir til velferðarráðuneytisins. Og staðan er þannig í dag.

Hins vegar hefur ráðuneytið verið að skoða hvernig best sé að haga eftirliti almennt með velferðarþjónustu, og sérstaklega félagsþjónustunni sem snýr þá að félags- og húsnæðismálaráðherra. Ef við horfum á þá þjónustu sem er verið að veita í gegnum velferðarkerfið erum við með mun þróaðri eftirlitsþætti sem snúa að heilbrigðiskerfinu meðan almennt eftirlit með félagsþjónustu, sem barnaverndarmálin falla náttúrlega undir, hefur ekki verið eins gott. Það er því verið að fara yfir hvernig best sé að haga þeim málum. Hvort rétt sé að stofnun sem hefur núna farið með eftirlit sem snýr að heilbrigðiskerfinu ætti í rauninni líka að fara með það sem snýr að félagsþjónustunni.

Hins vegar snúa þessi mál náttúrlega að sveitarfélögunum. Stefnan hefur verið, og ég hef verið þeirrar skoðunar, að reyna að færa sem mest af þessari nærþjónustu til sveitarfélaganna þar sem best er að veita hana — ég er sammála hv. þingmanni um það — og mest þekking er á. En þá er líka mjög mikilvægt, til að tryggja jafnræði í þjónustunni, að virkt eftirlit sé þá með því að sveitarfélög reyni að tryggja það sem best, en það hefur ekki verið til staðar.