143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég spyr: Er ekki mannréttindabrot að sprengja litla kínverja? Ég bara spyr. En það sem ég er hugsi yfir eru orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég hlustaði á hann í Kastljósi í gær og ef einhverjar breytingar eiga að verða á kvótakerfinu þá eru þær ekki sýnilegar á næstu árum ef þessi harðsvíraða kvótastjórn situr við völd. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að miða eigi við veiðireynslu síðustu þriggja ára í makríl og það sé eðlilegt. En á móti er ekki hægt að miða við veiðireynslu þriggja ára í rækju, það sé allt annar handleggur. Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi okkur svör um hvernig hann fær þetta nákvæmlega út og hvernig þetta eigi að standast.

Á Ísafirði er fyrirtæki sem nú hefur sagt upp fjölda manns út af þessari ákvörðun. Ég hélt að það væri verk þessarar ríkisstjórnar að reyna að koma svokölluðum hjólum atvinnulífsins í gang en ekki að stöðva þau hjól sem fyrir eru og eru komin í gang, en það virðist vera. Í máli hæstv. ráðherra kom líka fram að útgerðin á Vestfjörðum og Vesturlandi hefði lagst á hliðina hefði veiðigjaldið gengið eftir. Mér þætti gaman að heyra það rökstutt með tölum hvernig ráðherra fær það út. Ætli þær útgerðir sem þar eru séu ekki eitthvað laskaðar eftir það hvernig kvótakerfið hefur verið að þróast undanfarin tíu, fimmtán, 20 ár. Ætli flokkur hans beri nú ekki einhverja ábyrgð á því að hafa komið því kerfi á. En nú ætla framsóknarmenn að berja í brestina og að gera þetta kvótakerfi, eins ömurlegt og það er, að eilífðarvél hér í landinu. En ég segi nei. (Gripið fram í.)