143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sem talaði á undan mér sagði, það skiptir máli hvernig maður ræðst í niðurskurð. En það er með ólíkindum að saka forstöðumann um að grípa til niðurskurðar þegar ákvörðunin kemur frá ríkisstjórninni. Ég verð að segja að ég fékk mikið sjokk þegar við fréttum af því hvernig ætti að fara með fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Við vorum í rauninni búin að sjá það en sáum það svo birtast í uppsögnum í gær. Þetta er dapurlegt núna þegar við erum að halda upp á 30 ára afmæli Rásar 2. Við sjáum gríðarlega stefnubreytingu í málum Ríkisútvarpsins í gegnum fjárveitingar og það hefur verið gagnrýnt áður í þinginu að menn noti þær fjárveitingar til að boða stefnubreytingu.

Við erum með ný lög um hlutverk Ríkisútvarpsins en á sama tíma kemur ráðherra og tilkynnir í rauninni grundvallarstefnubreytingu í því sem Ríkisútvarpið á að standa fyrir. Ekkert „backup“ hér í þinginu fyrir einu eða neinu af því. Það er líka tilkynnt að til standi að breyta því hversu mikið má auglýsa og að frekari niðurskurður verði á næsta ári, samkvæmt tillögu ráðherra í fjölmiðlum. Þetta form á umræðu um fjárlög, um stofnun sem er með hundruð starfsmanna, að skilaboðin komi endalaust í gegnum einhvers konar valdboð, er fullkomlega óþolandi. Þetta verður að vinnast öðruvísi og það er ríkisstjórnin og þeir sem vinna þar sem í raun valda þessum usla.

Við höfum óskað eftir því, minnihlutafulltrúarnir í allsherjar- og menntamálanefnd, að annars vegar útvarpsstjóri og hins vegar stjórn útvarpsins komi til fundar við nefndina vegna þess að þau mál heyra þar undir og stjórnin hefur með fjármál stofnunarinnar að gera. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að við förum yfir hvernig er verið að breyta útvarpinu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér sýnist við aftur vera komin með gömlu stefnuna: Við skulum ríkisvæða það sem stendur út af þegar einkageirinn hefur hirt allt sem hægt er að græða á á markaðnum. (Forseti hringir.) Þannig rekum við ekki útvarp á Íslandi. Við þurfum öflugt ríkisútvarp til að virkja breiddina og ég ætla að vona að okkur takist að halda útvarpinu sem útvarpi í almannaþjónustu.