143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er sannarlega hægt að taka undir áhyggjur hv. þm. Guðbjarts Hannessonar af Ríkisútvarpinu og því sem þar er að gerast. Ég hef svolítið lagt hugann við það að hæstv. ráðherra leggur í máli sínu mikla áherslu á það að halda uppi menningarstarfseminni og þeirri starfsemi sem fram fer á Rás 1 og við kennum við Ríkisútvarpið.

Ég vil ekki síður segja að við þurfum að hafa áhyggjur af fréttaflutningi í landinu. Við þurfum að hafa áhyggjur af því að Ríkisútvarpið geti ekki haldið uppi öflugri fréttaþjónustu vegna þess að það skiptir máli. Vissulega geta menn farið í þann leik að segja að hinir frjálsu fjölmiðlar, sem svo eru kallaðir, þ.e. þeir sem ekki eru reknir af ríkinu, geti haldið uppi fréttaþjónustu — en það er ekki það sama. Við megum ekki rugla því saman, að bara menningarstarfsemin sem Rás 1 heldur uppi þurfi að vera áfram, heldur hef ég miklu meiri áhyggjur af fréttaþjónustunni. Henni þarf að halda áfram.

Ég ætlaði reyndar ekki að tala um þetta, virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um frétt sem ég las um daginn um að forsætisnefnd hefði kært ákvörðun Reykjavíkur um nýtt deiliskipulag. Ég ætlaði að fá þetta bréf áðan og fékk þá þær upplýsingar að ég þyrfti að senda skriflega beiðni til forseta til að fá bréf sem gefið er út í mínu nafni þar sem mitt kjördæmi í Reykjavíkurborg er kært.

Hvernig í ósköpunum stendur á þessu, virðulegi forseti? Ég held að það þurfi að endurskoða það hvaða aðgang þingmenn hafa að skjölum sem gefin eru út í þeirra nafni.