143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fjáraukalögin eru næturlesning þingmanna þessi dægrin. Mig langar til að fjalla um þær auknu 100 milljónir sem þarf vegna fjölgunar aðstoðarmanna hjá ríkisstjórninni, vegna þess að það er fimmtungur þess sem verið er að gera hjá Ríkisútvarpinu. Ekki það að mér finnist Ríkisútvarpið eigi að vera undanskilið niðurskurði en það þarf að gera með skynsamlegum hætti þannig að menn séu búnir að ákveða hvernig stofnun menn ætla að fá og miði síðan fjárframlögin til hennar við það.

Þetta er jafnhá upphæð, þ.e. þessar 100 milljónir, og hæstv. umhverfisráðherra finnst vera of miklir peningar og of mikill kostnaður við framkvæmd nýrra náttúruverndarlaga, svo að sá samanburður sé líka tekinn. Það eru náttúruverndarlög sem hefur tekið mörg ár að vinna, gríðarlegur kostnaður og margar stundir hafa farið í þá vinnu, en henni er allri kastað á glæ. Sama má segja um vinnu um græna hagkerfið, sem var þverpólitísk. Haldnir voru 50 fundir á fjórum árum og gríðarlega umfangsmiklar tillögur komu fram, en þegar maður skoðar fjáraukalögin sést að græna hagkerfið er orðið að einhvers konar húsafriðunarnefnd undir skrifstofu forsætisráðherra þar sem búinn er til liður sem heitir: Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Settar eru, svo dæmi sé tekið, 15,5 millj. kr. greinilega til forsætisráðuneytisins sem manni virðist að hæstv. ráðherra eigi að hafa til ráðstöfunar til að láta gera við hús sem honum finnst þurfa að gera við.

Ég verð að segja að sú forgangsröðun sem birtist í ríkisfjármálum með þessum hætti, svo ekki sé haft í huga það heimsmet í skuldaleiðréttingum sem menn ætla að ráðast í á morgun, er að verða sífellt furðulegri, virðulegur forseti.