143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo það sé alveg skýrt: Áform um að breyta bréfinu gengu ekki eftir. Það voru eiginlega fréttir sem ég fékk þegar ég kom í ráðuneytið, að þetta væri svona. Mér var ekki kunnugt um að þau áform hefðu verið uppi, ef ég á að gera þá játningu varðandi fjárlög síðasta árs, fyrr en við fórum að vinna í fjárlögum og fjáraukalögum þeim sem við erum að ræða hér og nú.

En það er sem sagt þannig að ef breytingin hefði gengið eftir hefðu vaxtagjöldin aukist með því að verðbótarþátturinn færðist þá með nafnvöxtum um rekstrarreikning ríkisins en hann færist nú sem endurmat í efnahagsreikningi. Þetta eru bókhaldslegar breytur sem skipta máli þegar við horfum á ríkisfjármálin á rekstrargrunni en hafa mjög lítið með það að gera hvað gerist á greiðslugrunni þegar við skoðum það hvað raunverulega er verið að greiða og hvað raunverulega kemur inn af greiddum sköttum og öðrum gjöldum.