143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn. Eins og fram kom í framsögu hv. þm. Óttars Proppé mun frumvarpið væntanlega fara til meðferðar í nefnd og verða rætt og fá á sig þá dýpt og þær víddir sem því ber sem svo mikilvægu máli.

Mig langar því í þessari 1. umr. málsins að varpa fram nokkrum vangaveltum kannski miklu frekar en að vera hér með einhverja endanlega afstöðu í málinu. Þá langar mig kannski í fyrsta lagi að velta upp efasemdum — af því að hv. þingmanni verður tíðrætt um rétt einstaklingsins, fjölbreytt samfélag og þessa nálgun alla saman, sem er mikilvæg og ég tek undir það, og hann ræðir nafnahefðir í samhengi við aðrar ákvarðanir einstaklingsins um það hvernig hann kýs að koma fram gagnvart samfélaginu.

Það sem mig langar að varpa fram til umhugsunar er það að hér er í raun um það að ræða að gefa eftir ákveðin sérkenni þar sem íslensk nafnahefð sker sig frá því sem víðast er í heiminum. Ég vil biðja fólk að velta því fyrir sér: Kann að vera að með meintri fjölbreytni í íslenskri nafnahefð séum við að nálgast meiri einsleitni gagnvart samfélagi þjóðanna, þ.e. að við gætum misst tökin á íslensku nafnahefðinni sem er sú að kenna sig til föður og móður í ríkari mæli eftir því sem nútíminn tekur yfir; sem er sérkenni fyrir Ísland og var sú norræna nafnahefð sem var við lýði á Norðurlöndum lengi en lifir eiginlega bara eftir hér á Íslandi og í íslenskri tungu. Maður upplifir það iðulega að þetta er „kúríósa“, ef svo má að orði komast, þegar maður er í samskiptum við fólk af öðrum þjóðernum, að svona skulum við hafa þetta. Að því leytinu til er hver og einn einstakari en þegar fjölskyldan og stórfjölskyldan kennir sig til sama nafns. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé komin að niðurstöðu, mig langar bara til að varpa þessu fram sem vídd í þessa umræðu.

Við vorum hér fyrr í dag aðeins að tala um stöðu íslenskrar tungu og það er alltaf þessi togstreita sem maður stendur frammi fyrir, annars vegar sú að tungumálið lýtur sínum lögmálum og breytist eftir því sem samfélagið breytist og það á að gera það. Hins vegar höfum við tilhneigingu til að vilja halda einhverju sögulegu samhengi í tungumálinu. Við viljum sjá það breytast og þróast og við viljum fagna því að nýyrði koma inn í það og það er frjótt og öflugt. En um leið segjum við að það sé eftirsóknarvert að geta lesið gamla texta o.s.frv. Þetta vísar svolítið hvort í sína áttina. Ekki viljum við gera íslenskuna að einhverjum safngrip, við viljum hafa málið lifandi. En um leið viljum við ekki sjá eftir því, við viljum ekki sjá það hverfa. Einhvern veginn þurfum við að geta bæði látið reka á reiðanum en samt verið undir stýri, það er eiginlega þessi kúnst.

Mér finnst mikilvægt að það mál sem hér er til umræðu sé hluti af þessari heildarmynd, þ.e. heildarmyndinni um stöðu og þróun íslenskrar tungu. Íslenska nafnahefðin er partur af því hvernig málið þróast og hvernig það hefur þróast.

Í öðru lagi langar mig að nefna það sem vekur mig til umhugsunar. Ég skil, og mér finnst ágætlega farið yfir það hjá hv. þingmanni, markmiðin að baki, hvað það er sem drífur þingmanninn og aðra flutningsmenn áfram, mér finnst vera gerð vel og skýr grein fyrir því. En ég velti fyrir mér þeirri nálgun sem er hér í frumvarpinu sem er sú að leggja niður mannanafnanefnd en halda lögunum annars óbreyttum að verulegu leyti. Tilteknir og afmarkaðir þættir eru ætlaðir ráðherra í frumvarpinu eins og það er lagt fram og þar er ég sannfærðari en í hinni vangaveltunni um að það er ekki góð leið.

Ef við viljum vera með einhvern ventil, ef við viljum ekki bara leggja niður lög um íslensk mannanöfn, sem gæti verið leið, ef við viljum ekki lög um mannanöfn; ef við viljum hafa einhver lög um mannanöfn yfir höfuð þá er ég sannfærð um að það er mjög vond leið að ætla ráðherra að skera úr ágreiningsmálum. Af hverju segi ég það? Hér er að vísu gert ráð fyrir því að þau verði mun færri. Ekki er gert ráð fyrir að ráðherrann sé með langa lista af nöfnum heldur að þessi ágreiningsmál verði færri.

Hvaða forsendur ætli ráðherra hafi til að taka afstöðu til ágreiningsmála, skera úr um málfræðileg álitamál eða hvað eina annað sem upp kynni að koma? Hann gæti haft ríkar og gæti haft engar forsendur til þess. Þar værum við alltaf komin með einhvers konar bakdyramannanafnanefnd sem væri ráðgjafahópur eða sérfræðingar eða einhver sem ráðherrann mundi kalla sér til fulltingis. Ég held að sú nálgun sé ekki leið að þessu markmiði. Ég held að það sé alltaf betra, ef við viljum hafa einhvern ventil og ég gef því bara möguleika að það geti farið hvorum megin sem er, sem flutningsmenn leggja til þá tel ég betra að það sé einhvers konar sérfræðingahópur frekar en að það sé ráðherra.

Hins vegar eru álitamál uppi, og það kom fram í framsögunni og líka í greinargerðinni, um verksvið og vinnureglur mannanafnanefndar. Það kann að vera að það þurfi að skoða. Mannanafnanefnd hefur raunar verið að þróa vinnureglur sínar í gegnum tíðina og hefur ekki verið blýföst í gömlum kennisetningum hvað það varðar og hefur verið í takti við breytingar dagsins. Ekki gengið nógu langt finnst sumum, gengið of langt finnst öðrum o.s.frv. En ég er samt þeirrar skoðunar að þá eigi maður að horfa frekar á rammann að vinnureglurnar sem mannanafnanefnd setur sér og hvernig þær endurspegla þessa sýn og markmið löggjafans eftir þá breytingu sem hér er lögð til ef hún nær fram að ganga.

Aðeins aftur út frá þróun íslenskrar tungu sem ég held að við getum ekki rofið frá þessari umræðu, af því að þetta er ein sneið af þróun íslenskunnar; breyting af þessu tagi hefði áhrif á það hvernig þessi geiri tungunnar mundi þróast. Það er einn af þeim þáttum sem hefur verið undir, eða hefur verið viðmið, að nafnið hafi eignarfallsmynd, þ.e. að það falli að fallakerfinu. Þetta hefur líka verið útgangspunktur að því er varðar nýyrðasmíð að við höfum viljað gæta að þessu fallakerfi og þess vegna hafa meira að segja sumir gengið svo langt að segja að „þágufallssýki“ sé af hinu góða vegna þess að hún styrki fallakerfið, þágufallið er yfirleitt fyrsta fallið sem gefur eftir í fallatungumálum. Það ætti því að vera fagnaðarefni fyrir málfræðisinna þegar þágufallið styrkist og nú hrylla menn sig hér, einhverjir, í salnum. En ef maður er bara að hugsa um kerfið í heild þá ætti það að vera fagnaðarefni. En þetta var útúrdúr. En að nafnið hafi eignarfallsmynd hefur verið viðmiðun.

Annað hefur verið viðmiðun, og það finnst mér frekar vera umhugsunarefni, þ.e. að nafnið sé stafsett samkvæmt málkerfi þjóðtungu. Það hefur verið nálgun sem mannanafnanefnd hefur byggt á samkvæmt lögunum að hafna nöfnum sem stafsetjast ekki samkvæmt íslensku málkerfi.

Þetta er alls ekki ætlað til að botna þessa umræðu með nokkrum hætti og alls ekki að draga þróttinn úr málinu. Ég tel mikilvægt að þingið taki málið til skoðunar, að nefndin fari yfir það, fái umsagnir o.s.frv. Mínar efasemdir, eins og hér hefur komið fram, lúta kannski fyrst og fremst að þessum úrskurðarfarvegi eða einhvers konar leið til að vísa ágreiningsmálum í og svo hins vegar mikilvægi þess að skoða þessa breytingu í samhengi við málkerfið almennt.

Ég geri ráð fyrir að hv. flutningsmaður — hann notaði orðalagið hér áðan „óþarfleg afskipti hins opinbera“ og lagði það að jöfnu við afskipti af klæðaburði og hárklippingum en mér finnst mikilvægt að við horfum á þessi „afskipti“. Þarna erum við að tala um hluta af málstefnu og það kann að verða niðurstaða málstefnu að hætta að hafa málstefnu og segja: Málið bjargar sér sjálft og það þróast eftir sínum lögmálum, breytist eins og það vill. Það eru þjóðir sem hafa gert það. Hollendingar eru mjög nálægt því og Danir eru mjög nálægt því líka, taka tökuorð mjög öflugt inn og málið tekur miklu hraðari breytingum en mál þar sem höfð eru uppi íhaldssamari sjónarmið; hvort tveggja er leið en þetta er hluti af stefnu og stefnumótun samfélaga til langs tíma og þess vegna finnst mér mikilvægt að þetta mál sé líka skoðað í því ljósi.