143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að gera að umtalsefni þann hátt þingmanna Pírata að vera ákaflega oft á gula ljósinu. Það er ákveðin ástæða fyrir því. Ástæðan er sú að við viljum helst ekki taka óupplýstar ákvarðanir.

Það er þannig og sér í lagi þegar komið er fram í desember eða á vormánuði að gríðarlegur fjöldi þingmála fer hér í gegn án þess að þingmenn hafi kost á að kynna sér þau. Ég tók upp þessa siðvenju ásamt félögum mínum í Hreyfingunni þegar til dæmis voru lögð fram þingmál einhliða á dagskrá með afbrigðum. Afbrigði þýða einfaldlega að við erum að taka þátt í afbrigðilegri hegðun. Ég tek helst ekki þátt í því. Jafnframt finnst mér mikilvægt að hafa það í huga að ástæðan fyrir því að þetta orð er notað er sú að við erum að bregða af venjunni og það á bara að gera stundum. Þegar við samþykkjum að taka mál á dagskrá með afbrigðum erum við að samþykkja að taka óupplýstar ákvarðanir.

Það er mjög slæmt að þegar maður er í þingflokki og þarf til dæmis að treysta á félaga sína þegar þeir ná kannski ekki heldur að vera nægilega vel upplýstir eins og hefur komið fram varðandi málið sem fjallað var um í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar virðist enginn muna nokkurn skapaðan hlut. Það má segja að allir þeir sem settu puttann á græna takkann þann dag hafi ekki vitað með hverju þeir voru að greiða atkvæði.

Ég skora á forseta þingsins og forsætisnefnd að gera bragarbót á þannig að við þingmenn getum tekið upplýstar ákvarðanir hér inni.